
Spútnik-bóluefni til Mexíkós og Brasilíu
Mexíkóar sömdu um 24 milljónir skammta
Hugo Lopez-Gatell, aðstoðarheilbrigðisráðherra Mexíkós, tilkynnti á þriðjudag að heilbrigðisyfirvöld hefðu gefið út neyðarleyfi fyrir notkun Spútnik-bóluefnisins og samið um kaup á allt að 24 milljónum skammta.
Áætlað er að 7.4 milljónir skammta berist til landsins á næstu þremur mánuðum og meira í maí. Byrjað var að bólusetja Mexíkóa á aðfangadag með bóluefni Pfizer-BioNTech og leggja yfirvöld allt kapp á að bólusetja sem flesta landsmenn sem allra fyrst. Um 126 milljónir manna búa í Mexíkó. Nær 1,9 milljónir hafa greinst með COVID-19 og ríflega 161.000 dáið úr sjúkdómnum.
9,3 milljónir smitaðar í Brasilíu
Enn fleiri hafa smitast og dáið í Brasilíu, þar sem rúmlega 9,3 milljónir tilfella hafa verið staðfest og nær 228.000 látið lífið. Um 210 milljónir manna búa í Brasilíu, þar sem bólusetning hófst 17. janúar.
Í tilkynningu frá brasilíska heilbrigðisráðuneytinu segir að fulltrúar þess muni funda með framleiðendum hvorutveggja Spútnik og hins indverska Covaxin á föstudag til að ganga frá samningum um kaup á bóluefni. Ætlunin sé að kaupa 10 milljónir skammta af Spútnik og 20 milljónir skammta af Covaxin.
Spútnik líka í Venesúela og Argentínu
Byrjað er að bólusetja með Spútnik í Venesúela og Argentínu, og í gær tilkynntu stjórnvöld í Níkaragva að þar væri einnig búið að gefa út neyðarleyfi til notkunar á rússneska bóluefninu. Í Kólumbíu er hins vegar búið að veita neyðarleyfi til að nota hið kínverska Sinovac-bóluefni.
Áreiðanlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að virkni Spútnik-bóluefnisins er litlu eða engu minni en virkni bóluefna frá Pfizer-BioNTech og Moderna, eða tæplega 93 prósent. Um virkni Sinovac og Covaxin liggja enn engar áreiðanlegar upplýsingar fyrir.