Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Proud Boys skilgreindir sem hryðjuverkahópur

04.02.2021 - 03:39
epa08985259 (FILE) - Two people, one of them with a Proud Boys shirt, gesture with the White Power sign, as supporters of US President Donald J. Trump gather to support his legal challenges to the 2020 presidential election, in Freedom Plaza, in Washington, DC, USA, 14 November 2020 (reissued 03 February 2021). Canada has labbeled the Far-right group the Proud Boys a terrorist group, Canadian public safety minister Bill Blair announced on 03 February 2021.  EPA-EFE/GAMAL DIAB
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Kanadísk stjórnvöld hafa skilgreint bandarísku nýfasistahreyfinguna Proud Boys sem hryðjuverkasamtök. Bill Blair, ráðherra almannaöryggis í Kanadastjórn, segir ákvörðunina meðal annars tekna vegna þess „lykilhlutverks“ sem Proud Boys léku í áhlaupinu á Bandaríkjaþing í janúar.

Hryðjuverkaskilgreiningin verður til þess að yfirvöldum er heimilt að frysta allar eignir hreyfingarinnar í Kanada og meðlimir hennar eiga á hættu að verða ákærðir fyrir hryðjuverk, fremji þeir ofbeldisverk af einhverju tagi á kanadískri grund.

Ofbeldisfullir, hvítir kynþáttahatarar

Meðlimir Proud Boys eru allir hvítir karlar og allir rasistar og andsnúnir innflytjendum. Tiltölulega stutt saga hreyfingarinnar er vörðuð ofbeldisfullum mótmælum og uppákomum af ýmsu tagi.

Hún var stofnuð árið 2016 af Kanadamanninum Gavin McInnes, einum af þremur stofnendum bandarísk-kanadíska fjölmiðlafyrirtækisins Vice Media. Í dag á hann þó ekkert í fyrirtækinu, sem leggur mikla áherslu á að það tengist hvorki McInnes né Proud Boys á nokkurn hátt.

Harðir stuðningsmenn Trumps

Proud Boys eru - eða voru að minnsta kosti til skamms tíma - í hópi hörðustu og háværustu stuðningsmanna Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Hann fagnaði stuðningi þeirra í fyrstu en sá sig knúinn til að afneita þeim skömmu fyrir kosningarnar í haust. Minnst átta félagar í Proud Boys hafa verið handteknir í tengslum við árásina á þinghúsið í Washington hinn 6. janúar.