Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Íbúðaverð hækkaði meira í fyrra en búist var við

04.02.2021 - 19:57
Mynd: Kastljós / RÚV
Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá Landsbankanum, segir að fasteignaverð hafi hækkað meira í fyrra en búist hafi verið við í heimsfaraldri kórónuveirunnar. Mikil spenna hafi myndast á fasteignamarkaði eftir vaxtalækkun á miðju síðasta ári, íbúðasala jókst og fasteignaverð hækkaði.

„Við sáum mánaðarlegar tölur yfir íbúðasölu sem við höfum ekki séð síðan árið 2007. Þannig að það var vissulega mjög mikil spenna og það hefur að einhverju leyti haft áhrif á verðlagið þannig að við erum búin að sjá aðeins meiri verðhækkanir heldur en voru á mánuðum áður.“

Ákveðnar vísbendingar séu um að fasteignaverð fari hækkandi en raunverð fasteigna sé enn undir langtímameðaltali. Hækkun á fasteignaverði sé mikil sé litið til þess að nú er kreppa. 

Hækkun á fasteignaverði hafi verið meiri á árunum 2016-2017. „Þá vorum við að sjá yfir 20 prósent hækkanir á einu ári. Núna er þetta innan við fimm prósent. Þannig að þetta er ekki mikið í sögulegu samhengi. Við höfum verið að jafnaði með ca. níu prósenta nafnverðshækkanir frá aldamótum. En þetta er mikil hækkun í ljósi þess að við erum í kreppu.“

Óvissa hafi verið um hver áhrif kórónuveirufaraldursins yrðu á húsnæðismarkaðinn. „Við vorum að gera ráð fyrir að þetta yrði kannski ca. tvö prósent verðhækkun í fyrra en hún reyndist vera 4,8 prósent.“

Einar Þorsteinsson ræddi við Unu í Kastljósi í kvöld meðal annars um uppsafnaða íbúðaþörf og hversu margar íbúðir eru á leiðinni á markað. Þar kom í ljós að talsvert vantar uppá að þessari þörf sé mætt. Hægt er að horfa á allan þáttinn í spilaranum hér fyrir ofan.