Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hvetur þjóðir heims til að knésetja valdaræningjana

epa07632818 UN Secretary General Antonio Guterres  speaks during a plenary session of SPIEF 2019 Economic Forum in St. Petersburg, Russia, 07 June 2019. The St. Petersburg International Economic Forum runs from 06 to 08 June 2019.  EPA-EFE/YURI KOCHETKOV
 Mynd: epa
Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hvetur þjóðir heims til að sjá til þess að valdarán hersins í Mjanmar fari út um þúfur. Kollvörpun kosningaúrslita er „óásættanleg" sagði Guterres, og brýnt að koma valdaræningjunum í skilning um að svona eigi og megi ekki stjórna landinu.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur fjallað um valdaránið síðustu daga og lögð hafa verið fram drög að ályktun þar að lútandi, sem ekki hefur náðst sátt um. Samkvæmt heimildum breska ríkisútvarpsins, BBC, er talið ólíklegt að Kínverjar fallist á nokkra þá ályktun, þar sem valdaránið er beinlínis fordæmt.

Saka Lýðræðisfylkinguna um kosningasvik

Herinn rændi völdum í Mjanmar á mánudag og handtók hundruð stjórnmála- og embættismanna, þar á meðal forseta landsins, Win Myint, og eiginlegan leiðtoga þess, Aung San Suu Kyi. Herforingjastjórnin freistar þess að réttlæta valdaránið með fullyrðingum um, að Lýðræðisfylking Aung San Su Kyi hafi haft rangt við í kosningunum í haust, þar sem flokkurinn vann stórsigur.

Meirihluti hinna handteknu hefur nú verið látinn laus, en þau Suu Kyi og Myint eru enn í haldi og hafa verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til 15. febrúar. Suu Kyi er ákærð fyrir brot á innflutningslögum en forsetinn fyrir að brjóta lög um viðbrögð við náttúruhamförum.  

Tíu ár síðan síðasta herforingjastjórn afsalaði sér völdum - að hluta

Ellefu manna herforingjastjórn, með yfirhershöfðingjann Min Aung Hlaing í brúnni, hefur nú aftur hrifsað til sín völdin í Mjanmar, um tíu árum eftir að síðasta herforingjastjórn lét völdin að mestu í hendur borgaralegum stjórnmálahreyfingum, með ákveðnum skilyrðum þó.

Eitt þeirra skilyrða var að leiðtogi lýðræðissinna, Aung San Suu Kyi, myndi ekki gegna formlegri valdastöðu. Þótt hún hafi uppfyllt það skilyrði hefur hún jafnan verið manneskjan með völdin bak við tjöldin.