Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Færeyingar vilja í Alþjóða heilbrigðismálastofnunina

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Færeyingar hyggjast sækja um sjálfstæða aðild að Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni, WHO, og verður umsókn þar að lútandi lögð fram á aðalfundi stofnunarinnar 21. maí næstkomandi.

Færeyska fréttastofan greinir frá þessu. Þar er haft eftir Kaj Leo Holm Johannessen, sem fer með heilbrigðismál í færeysku landsstjórninni, að kórónaveirufaraldurinn hafi með skýrum hætti sýnt fram á mikilvægi þess að Færeyjar geri sig gildandi í alþjóðasamfélaginu og hafi sinn eigin fulltrúa hjá Alþjóða heilbrigðisstofnuninni.

Aðild að henni tryggi þeim meðal annars aðgang að meiri og betri upplýsingum um þróun mála allt frá fyrsta degi ef heimsfaraldur brýst út, segir Johannesen. Þá auðveldi hún færeyskum vísindamönnum að koma rannsóknum sínum og niðurstöðum þeirra á framfæri.

Aðeins aukaaðild í boði fyrir Færeyjar

Einungis fullvalda ríki geta orðið fullgildir aðilar að Alþjóða heilbrigðisstofnuninni, en lönd og þjóðir með takmarkað fullveldi, svo sem Færeyjar og Grænland, geta fengið aukaaðild. Færeyingar geta þó ekki sótt um hana sjálfir, heldur þurfa dönsk stjórnvöld að gera það fyrir þeirra hönd.

Aukaaðild veitir Færeyingum heimild til að senda fulltrúa á aðalfund Alþjóða heilbrigðsstofnunarinnar og á alla helstu nefndarfundi og ráðstefnur á hennar vegum. Þeir fulltrúar hafa tillögurétt, en ekki atkvæðarétt.