Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Búið að senda öll sýnin til Danmerkur

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Öll tvö þúsund sýnin sem átti eftir að greina þegar skimun vegna leghálskrabbameins fluttist frá Krabbameinsfélagi Íslands til stjórnvalda um áramót hafa verið send danskri rannsóknarstofu til greiningar. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra greindi frá þessu á Alþingi í dag og sagði seinni skammtinn hafa verið sendan til Danmerkur í dag. Um 400 sýni sem tekin voru í kringum áramót verða send út eftir helgi.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði út í málið í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Hún gagnrýndi tafir sem orðið hafa á greiningu sýna sem tekin voru fyrir áramót og undraðist að innlendir vísindamenn væru ekki fengnir til greiningarinnar.

„Það getur ekki verið sérstakt hagsmunamál hvar sýnin eru greind heldur að þau séu rétt greind. Það er öryggismál,“ sagði Svandís. „Stóri samningurinn um greiningu á þessum sýnum var tilbúinn á föstudaginn var. Nú hafa 2.000 sýni verið send út sem voru uppsöfnuð hjá Krabbameinsfélagi Íslands. Þau seinni voru send út í dag til Danmerkur. Um 400 sýni sem voru tekin í enda desember og byrjun janúar verða send út eftir helgi.“

Haft verður samband við allar konur sem hafa sýni og þeim tilkynnt um niðurstöðu sýnatökunnar. Talið er að allt af 15 prósent kvennanna þurfi að fara í aðra sýnatöku, sem þær fá án endurgjalds.