Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Bretland: gangur í bólusetningu, ekki skimun

04.02.2021 - 08:55
Mynd: EPA / EPA
Í Bretlandi gengur vel að bólusetja, takmarkið að bólusetja 15 milljónir manna fyrir miðjan febrúar innan seilingar. Sá árangur og hitasóttarkennd umræða um ný veiruafbrigði hefur í bili dregið athyglina frá skimun, sem hefur ekki gengið jafn vel. En í dag minnast Bretar kapteinsins Tom Moore, öldungsins sem snerti hjörtun heima og heiman eins og heyra mátti í miðnæturfréttum breska ríkisútvarpsins.

Þjóðhetjan Tom kapteinn

Andlát Sir Tom Moore var fyrsta frétt á miðnætti í gær. Moore hafði greinst með Covid og lést úr lungnabólgu. Bretadrottning minntist þessa tíræða öldungs. Í dag hefur varla nokkur komið fram án þess að minnast Tom kapteins eins og þjóðin kallar hann. Breska þingið minntist hans með mínútu þögn. Boris Johnson forsætisráðherra hvattil fólk til að fara út á tröppur í kvöld og klappa fyrir Tom og heilbrigðiskerfinu.

Miðaði á að safna þúsund pundum, safnaði 33 milljónum

Í vor stefndi kapteinninn á að safna þúsund pundum, tæplega 180 þúsund krónum, til að styrkja heilbrigðiskerfið í veirubaráttunni, með því að ganga hundrað hringi í garðinum sínum fyrir aldarafmælið í lok apríl. Nokkurt þrekvirki fyrir öldung með göngugrind. Eftir að gangan flaug á samfélagsmiðlana söfnuðust ríflega 30 milljónir punda, 5,3 milljarðar króna.

Þjóðhetjan sem allir vildu eiga í

Kapteinninn varð þjóðhetja, sem allir vildu eiga hlut í og hverri viðurkenningunni á fætur annarri tyllt á hann. Hann var aðlaður, varð Sir Tom. Á afmælinu bárust honum 150 þúsund afmæliskort, hermenn stóðu heiðursvörð og Spitfire flugvélar flugu yfir húsið hans. Þá var hann þegar búinn að taka upp lagið ,,You‘ll never walk alone,“ með söngvaranum Michael Ball og kór hjúkrunarfólks, sem skaust beint í fyrsta sæti vinsældarlistans.

Seinni heimstyrjöldin og breska æðruleysið

Hjá þjóð sem vitnar ótt og títt í sögu seinni heimstyrjaldarinnar eiga þeir fáu, sem eru enn á lífi af þeim sem börðust fyrir Bretland, sérstakan sess í hugum þjóðarinnar. Stríðskynslóðin þótti sýna æðruleysi. Allt við Tom kaptein var í þeim anda.

,,Það verður allt í lagi með okkur í lok dagsins og þó það sé erfitt hjá mörgum þá mun sólin skína aftur.“ Einmitt það sem fólk vildi heyra og ekki síst stjórnmálamennirnir, sem vitnuðu stöðugt í hann.

epa08981913 Then 99-year-old British veteran Captain Tom Moore reacts after completing the 100th length of his back garden in Marston Moretaine, Bedfordshire, Britainton Moretaine, Bedfordshire, Britain, 16 April 2020 (reissued 02 February 2021). According to Moore's family, 100-year old Tom Moore, who raised about 33 million British pounds (almost 37 million euros) for Britain's National Health Service (NHS), has died. Moore was taken to a hospital 31 January 2021 after testing positive for Covid-19 and having problems with breathing.  EPA-EFE/VICKIE FLORES
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sir Tom Moore

Andateppuumræða um ný Covid-afbrigði

Það er ekki alveg sama æðruleysið í fréttaflutningi breskra miðla af nýjum Covid-afbrigðum. Þegar í sumar bentu ráðgjafar bresku ríkisstjórnarinnar á að nýrra afbrigða mætti vænta. Þó allt bendi enn til að bóluefnaframleiðendur sjái við afbrigðunum einkennast breskar veiruafbrigðafréttir nú af angist og andarteppu: hvernig eigi að halda þeim úti, hvort bóluefnin vinni á þeim.

Reglur til að halda úti nýjum veiruafbrigðum en ekki í bráð

Bretar eiga sitt afbrigði, sem önnur lönd reyna að bægja frá. Bresk yfirvöld reyna að forðast afbrigði frá Suður-Afríku og Brasilíu. Því ákveðið að þeir sem kæmu frá þessum löndum og frá alls 33 há-áhættu löndum þyrftu að fara í tíu daga sóttkví á hótel á eigin kostnað, þó hótelið sé ekki að eigin vali. En öldungis óljóst hvenær þessar reglur taka gildi.

Heldur forsætisráðherra að nýju afbrigði komin bara í beinu flugi?

Í fyrirspurnartíma forsætisráðherra í dag benti Keir Starmer leiðtogi Verkamannaflokksins á þetta ráðleysi, að setja reglur sem tækju svo ekki gildi. Daglega kæmu 21 þúsund manns til landsins, stjórnin hyggðist ekki grípa til aðgerða fyrr en eftir margar vikur og þá aðeins gegn beinu flugi frá nokkrum löndum. Reynslan sýndi að í upphafi kom aðeins prósentubrot smita beint frá Kína, þaðan sem bein flug voru bönnuð, en 62 prósent smita komu óbeinu leiðin um Frakkland og Spán, sem sættu engu banni.

Af hverju heldur forsætisráðherra að veiruafbrigðin hegði sér eitthvað öðruvísi og komi aðeins til Bretlands með beinu flugi? spurði Starmer.

Forsætisráðherra svarar fyrir sig

Forsætisráðherra þvertók fyrir aðgerðaleysi en réðst á Starmer fyrir að hafa lýst því yfir í þinginu að Bretar hefðu átt að vera í samfloti við evrópsku lyfjastofnunina, sem þá þýddi að þeir væru á byrjunarreit. Sem Starmer sagði einfaldlega rangt.

Karp og kíf, bólusetningin gengur vel, skimunin er gleymd

En þrátt fyrir karp og kíf í þinginu gengur bólusetningin vel. Stefndi í að alls yrði búið að bólusetja yfir tíu milljónir nú í dag, flestir þó aðeins í fyrri bólusetningu. Þrátt fyrir þann árangur er brotalöm á breskum aðgerðum: víðtækt skimunarkerfi ekki komist almennilega á, þrátt fyrir að miklu fé hafi verið varið í það alveg síðan í vor. Íslenska reynslan sýnir einmitt gagnið af víðtækum skimunum.