Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Braut 96 sinnum gegn nálgunarbanni

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Landsréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manni sem grunaður er um ofbeldi gagnvart sambýliskonu sinni og barnungri dóttur hennar. Í dómi héraðsdóms segir að maðurinn hafi áður verið dæmdur fyrir ofbeldi gagnvart þáverandi sambýliskonu sinni. Þá hafi hann tveimur árum síðar verið dæmdur fyrir að brjóta alls 96 sinnum gegn nálgunarbanni gagnvart sömu konu. Þann dóm hlaut maðurinn 2019 og var hann skilorðsbundinn. Rökstuddur grunur sé um að hann hafi nú rofið skilorð. 

Í dómnum kemur einnig fram að fyrir hin meintu nýju brot hafi maðurinn verið handtekinn í janúar eftir að stjúpdóttir hans greindi frá því í skólanum að maðurinn hefði beitt bæði hana og móður hennar andlegu og líkamlegu ofbeldi. Barnavernd var kölluð til og kemur fram í dómnum að þegar stúlkan hafi komið heim til sín hafi hún verið verið tekin í gegn fyrir að ræða við Barnavernd. Eftir þetta hafi hún ekki þorað að fara heim og hitta þar stjúpa sinn. Hún hafi sagst vera hrædd við hann og raunverulega hrædd um líf sitt.

Maðurinn var handtekinn 26. janúar og úrskurðaður í gæsluvarðhald til 26. febrúar í Héraðsdómi Reykjaness. Landsréttur hefur nú staðfest úrskurðinn.
 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV