Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Allur landbúnaður kolefnisjafnaður fyrir 2040

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Íslenskur landbúnaður verður að fullu kolefnisjafnaður innan nítján ára. Þetta kemur fram í samkomulagi sem lanbúnaðaráðherra og Bændasamtökin undirrituðu í morgun. Með þessu lauk jafnframt endurskoðun á öllum fjórum búvörusamningum sem tóku gildi fyrir fjórum árum. Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir þetta engu breyta um matvælaverð.

Þá varð einnig samkomulag um að ný lanbúnaðarstefna verði grunnur að næstu endurskoðun samninganna eftir tvö ár. Jafnframt var ákveðið að á næstu vikum verði sett á fót svonefnt mælaborð landbúnaðarins en þar verður hægt að nálgast upplýsingar um matvælaframleiðslu og fá yfirsýn yfir framleiðslu, sölu og birgðir í landinu. Í samkomulaginu sem undirritað var í dag felst einnig að útbúið verði sérstakt búvörumerki fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir að norrænni fyrirmynd.

Markmiðið er að allar landbúnaðarafurðir verði vottaðar kolefnishlutlausar fyrir árið 2040. Þetta á að gera með því að auka þekkingu bænda á losun og bindingu kolefnis, nýta aðföng og áburð betur, draga úr sóun, stuðla að markvissri ræktun og aukinni sjálfbærni. Þá segir í samkomulaginu að auka þurfi beina ráðgjöf og fræðslu fyrir bændur og skoðað verði að innleiða fjárhagslega hvata.

Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir ekki miklar breytingar felast í endurskoðun á samningunum.

„Í raun og veru er bara verið að skerpa á þeim línum sem voru settar í samningi 2016. Þannig að það er svo sem ekki verið að breyta neinu fyrirkomulagið í stóru myndinni,“ segir Gunnar.

Þannig að þú sérð ekkert í þessu sem gæti breytt verði á matvælum, hækkað það t.d. vegna þessarar kolefnisjöfnunar?

„Nei, það er náttúrulega bara verið að vinna að framtíðarsýn landbúnaðarins um að hann verði kolefnisjafnaður fyrir  2040 eins og stefnt er að með öðrum búvörusamningum. Þannig að þetta er samhljóma þeim áherslum,“ segir Gunnar.

Telur þú að þetta markmið náist um að kolefnisjafna allan landbúnað fyrir 2040?

„Við vinnum að því hörðum höndum og stefnan er sett á það. Þannig að ég á von á því að við getum tekið höndum saman um að vinna að því. Það er okkar meginmarkmið,“ segir Gunnar.