Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Texta þarf fleira en Disney+

03.02.2021 - 15:05
Mynd með færslu
 Mynd: disney
Mikilvægt er að efla textun sjónvarpsefnis, bæði til að auka aðgengi barna og til að bæta möguleika heyrnarskertra og fleira fólks til að taka þátt í þjóðmálaumræðu sögðu þingmennirnir Halla Signý Kristjánsdóttir og Helga Vala Helgadóttir við upphaf þingfundar í dag. Þær lögðu út af umræðu undanfarið um að afþreyingarrisinn Disney býður ekki upp á íslenskt tal eða texta í streymisveitu sinni. Þær sögðu að víðar væri þó þörf á úrbótum.

Óánægju fór að gæta fljótlega eftir að Disney+ streymisveitan var opnuð hérlendis. Þrátt fyrir að myndir fyrirtækisins hafi verið textaðar og talsettar áratugum saman var ekkert slíkt í boði. Fyrir skemmstu beitti Jóhannes Haukur Jóhannesson leikari sér fyrir tal- og textasetningu myndanna. Hann skoraði meðal annars á Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra að beita sér, sem sendi stjórnendum Disney bréf um málið.

Ekki bara fyrir börn og heyrnarskerta

Tveir þingmenn tóku málið upp við upphaf þingfundar í dag, í liðnum störf þingsins. 

„Í dag er lögð mikil áhersla á læsi barna sem hefur farið hnignandi. Textun efnis gæti eflt læsi barna,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. „Það er samt ekki aðeins textun á barnaefni sem er ábótavant heldur textun á öðru íslensku efni, svo sem kvikmyndum og þjóðfélagslegri umræðu í sjónvarpi. Í byrjun faraldurs var vel staðið að textun á sjónvarpsefni fyrir heyrnarskerta. Þá var ánægjulegt að sjá táknmálið sýnilegt. En betur má ef duga skal og er því mikilvægt að nýta þá reynslu sem fékkst af þessu, að halda áfram á sömu braut.“

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að 54 þúsund manns gætu illa notið þeirra mannréttinda að fylgjast með útsendu efni, samkvæmt könnunum. Hún sagði að það hefði áhrif á samfélagsþátttöku þessa fólks að geta ekki fylgst með stjórnmálaumræðu og öðru sem er í gangi í þjóðfélaginu og í fjölmiðlum í beinni útsendingu. „Ég vil því skora á hæstvirtan menntamálaráðherra að gera bragarbót á þessu, að stjórnvöld veiti fjölmiðlum sem sjónvarpa íslensku efni, hvort sem um er að ræða fréttaefni eða annað efni, stuðning þannig að hægt sé að nota róbóta, eins og er annars staðar um heiminn, til að texta á rauntíma það efni sem sjónvarpað er. Þannig tryggjum við mannréttindi allra, líka þeirra sem búa við skerta heyrn.“