Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Snjóflóð, krapaflóð og skriður dæmi um veðuröfga

03.02.2021 - 19:55
Mynd: Óðinn Svan Óðinsson / RUV
Metúrkoma á Seyðisfirði, fjöldi snjóflóða í janúar og krapaflóð í Jökulsá á Fjöllum eru öfgar eins og búast má við af loftslagsbreytingum, segir sérfræðingur í loftslagsmálum hjá Veðurstofunni. Óvenjulegt sé að snjóflóð falli svo víða um land á svo stuttu tímabili. 

Ekki endilega óvenjulegir öfgar

„Þetta er allt saman dæmi um eitthvað sem verður vegna einhverra veðuröfga. Þessar veðuröfgar þurfa ekki að vera svo óvenjulegar á heildina séð,“ segir Halldór Björnsson sérfræðingur í loftslagsmálum hjá Veðurstofu Íslands.

Há en ekki óvenjuleg flóð

Umferð var hleypt yfir brúna yfir Jökulsá á fjöllum í morgun en áin hefur verið í miklum ham undanfarna daga. Ekki er hægt að útiloka annað krapahlaup í ánni og því áfram vakt við brúna.

Stærsta krapaflóð í manna minnum flæddi yfir veginn undir lok síðasta mánaðar. Áin fór yfir fimm metra sem hefur aðeins gerst fimm sinnum síðan mælingar hófust fyrir hálfri öld og nálgaðist brúargólfið á tímabili. „Flóðin í Jökulsá á fjöllum eru mjög há. Flóð af þessu tagi eru ekki svo óvenjuleg,“ segir Halldór jafnframt.

Dreifð snjóflóð um allt land

Þá bárust um 130 tilkynningar um snjóflóð á tíu daga tímabili undir lok síðasta mánaðar á norðanverðum Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. „Snjóflóðin voru óvenju dreifð. Það er ekki algengt að það verði snjóflóð alls staðar á landinu, á þessum svæðum á sama tíma.“

Dæmi um loftslagsbreytingar?

Þá mældist metúrkoma dagana fyrir skriðuföllin á Seyðisfirði fyrir jól. „Allt sem við erum að sjá núna fellur undir það sem við getum búist við af loftslagsbreytingum. En það þýðir ekki það að við getum bent á ákveðna skriðu eða ákveðið snjóflóð og sagt þetta eru loftslagsbreytingar. Heldur einfaldlega að við megum búast við því með loftslagsbreytingum að úrkoma aukist og þá er ýmislegt fleira sem getur gerst,“ bætir hann við.

Halldór segir að aðalmálið sé að vera undirbúinn fyrir náttúruhamfarir. „Dæmi eru um hvernig menn hlaupa yfirleitt af stað eftir hamfarir en það er líka mikilvægt að geta líka unnið þannig að við sjáum þær fyrir.“