Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Skoðuðu veirurannsóknarstofu í Wuhan

03.02.2021 - 08:35
Security personnel gather near the entrance of the Wuhan Institute of Virology during a visit by the World Health Organization team in Wuhan in China's Hubei province on Wednesday, Feb. 3, 2021. (AP Photo/Ng Han Guan)
Öryggisverðir við veirurannsóknarstofuna í Wuhan í morgun. Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP
Sérfræðingar á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sem leita uppruna kórónuveirunnar, heimsóttu í morgun veirurannsóknarstofu í borginni Wuhan í Kína.

Almennt telja vísindamenn að veiran, sem fyrst greindist í Wuhan, eigi uppruna í leðurblökum, en hafi síðan borist í önnur dýr og þaðan í menn. Hins vegar hafa komið fram kenningar um að uppruna kórónuveirufaraldursins megi rekja til rannsóknarstofunnar í Wuhan.

Ýjuðu bandarískir ráðamenn að því á síðasta ári, þeirra á meðal Mike Pompeo, fyrrverandi utanríkisráðherra, sem sagði trúverðugar vísbendingar í þá veru.

Peter Daszak, sem fer fyrir sérfræðingahópi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, vildi lítið tjá sig fyrir heimsóknina, en sagði að spurðar yrðu allar spurningar sem þyrfti að spyrja.