Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Sér ekki fyrir sér rafhlöðuknúna júmbóþotu

03.02.2021 - 09:15
Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Framkvæmdastjóri NýOrku segist hvorki sjá fyrir sér júmbóþotu fljúga um á rafhlöðum né heldur að frystitogarar verði knúnir áfram með rafhlöðum í framtíðinni. Eftirspurn eftir vetni sé þó að aukast og fyrirspurnir berist frá útlöndum um möguleika á útflutningi á vetni.

Landsvirkjun telur að útflutningur á vetni geti orðið umfangsmikil útflutningsgrein í nánustu framtíð. Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri NýOrku segir að eftirspurnin eftir vetni sé að aukast og ljóst að hún muni halda áfram. Spurningin sé hvernig vetnið verði nýtt. Vetnið sé byggingarefni í nánast hvaða eldsneyti sem er.

„Metan, metanól og ammoníak eða hvaða eldsneyti sem er. Það eru nánast allir að skoða leiðir hvernig eigi að geyma orku og breyta henni síðan í færanlega orku eins og við erum að nota jarðefnaeldsneytið í dag. Það er ekkert sem segir okkur annað en að eftirspurnin sé að stóraukast og við erum að fá fyrirspurnir erlendis frá um möguleika á útflutningi á vetni,“ segir Jón Björn.

Efasemdir um vetnið

Það heyrast þó gagnrýnisraddir um vetnið, til dæmis frá bílaframleiðandanum Scania, sem hefur efasemdir. Þrefalt meira af endurnýjanlegri orku þurfi til að knýja bíla með vetni miðað við hreinan rafbíl.  Notkun vetnis sé líka flókin.

„Það er erfitt að taka eitt dæmi eins og Scania sem hefur mjög takmarkaða reynslu af vetnistækninni. Það eru önnur fyrirtæki að fara í vetni og aðrir eru að hætta í vetni. Síðan eru stór rafhlöðufyrirtæki eins og Corvus sem er eitt stærsta rafhlöðufyrirtæki í heimi. Þeir voru að gera samning um að fara að nýta efnarafala og vetni um borð í skipum í samspili við sína rafgeyma.“

Jón Björn segir að óháð öllum vangaveltum um rafhlöður í svo og svo stóra bíla þá sé ljóst að vetni sé byggingarefnið fyrir allt annað eldsneyti.

„Ég mun ekki sjá júmbóþotu fljúga um á batteríum og sé ekki heldur fyrir mér frystitogara fara út á sjó knúinn með rafhlöðum. Til þess þurfum við að hafa eldsneyti og það verður í öðru formi en rafmagn geymt í rafgeymum. Í dag sjáum við ekki fyrir okkur flutningabílakerfi eins og í Bandaríkjunum, Þýskalandi eða annars staðar keyra um á rafgeymum í 40 tonna trukkum eða stærri,“ segir Jón Björn.

Nánar er rætt við Jón Björn í Speglinum.