Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ósanngjarnt að kvóti fari frá smáum til stórra útgerða

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Smábátasjómenn sem stunda makrílveiðar hafa ákveðið að áfrýja til Landsréttar dómi héraðsdóms sem sýknaði ríkið af kröfum þeirra um að fyrirkomulag úthlutunar veiðiheimilda verði fellt úr gildi. Formaður félagsins segir ósanngjarnt hve stóran hlut af aflanum stóru útgerðirnar fái. 

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í lok janúar að Félagi makrílveiðimanna, sem skipað er tæplega fjörutíu smábátaútgerðum, hefði ekki tekist að sýna fram á að farið hefði svig við stjórnarskrá með lögum um úthlutun aflahlutdeildar á grundvelli tíu bestu aflareynsluára veiðiskipa á árunum 2008–2018. 

Unnsteinn Þráinsson, formaður félagsins, segir að stjórn félagsins hafi ákveðið að áfrýja dómnum til Landsréttar. Allar smábátaútgerðirnar í félaginu hafi stundað makrílveiðar. Þeim þyki ósanngjarnt hve stóran hlut stóru útgerðirnar fái af makrílkvótanum.

Kvóti færður frá litlu útgerðunum til stóru

„Það er náttúrulega verið að færa veiðiheimildir frá okkur til stóru útgerðanna. Við vorum skertir um 45% að meðaltali og kvótinn var færður til stóru útgerðanna. Tilgangurinn virðist vera sá að minnka skaðabótakröfu sem stóra útgerðin fór í eftir að hún vann mál 2018,“ segir Unnsteinn.

Sjö útgerðarfyrirtæki höfðuðu mál gegn ríkinu þar sem þau töldu að þeim hefði verið úthlutað minni makrílkvóta en ráðuneytinu hafi verið skylt að gera. Fyrirtækin unnu fyrir þremur árum málið. Í kjölfarið höfðuðu útgerðarfélögin sjö, sem eru Eskja, Gjögur, Huginn, Ísfélag Vestmannaeyja, Loðnuvinnslan, Skinney-Þinganes og Vinnslustöðin, skaðabótamál gegn ríkinu og kröfðust ríflega tíu milljarða króna. 

Fljótlega fækkaði í þessum hópi og fimm félög ákváðu að falla frá skaðabótakröfunni. Eftir stóðu Huginn og Vinnslustöðin. Síðarnefnda fyrirtækið keypti svo Hugin á mánudag.

„Það er það sem okkur finnst svo óréttlátt í þessu er að það er verið að taka í raun og veru heimildirnar okkar og færa til stóru útgerðanna. Svo er annað sem var gert líka og það var að okkar heimildir voru settar í sérflokk, hálfgerðan ruslflokk að okkur finnst. Þær voru lokaðar af í sérkerfi þar sem er miklu minni sveigjanleiki en er um allan annan kvóta. Það finnst okkur líka mjög óeðlilegt og teljum að sé ólöglegt,“ segir Unnsteinn. 

Makrílveiðin skiptir miklu fyrir afkomu smábátasjómanna

Unnsteinn segir að flestir í félaginu stundi makrílveiðar og hún geti skipt miklu fyrir afkomuna.

„Síðustu árin hefur þetta verið stór partur af tekjum hjá mörgum þessara útgerða og fyllt upp árið þegar aðrar veiðiheimildar eru búnar, þá hafa margir farið á makrílveiðar. Það eru dæmi um að þetta sé upp í 30-40% af árstekjum þessara litlu útgerða,“ segir Unnsteinn.