Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ofbeldisfullur og erfiður nágranni telst fasteignagalli

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Kaupandi fasteignar þarf ekki að greiða einnar milljónar króna lokagreiðslu þar sem seljandi hafði leynt upplýsingum um ofbeldisfullan og erfiðan nágranna, samkvæmt dómi Landsréttar. Með dómi sínum staðfesti Landsréttur dóm Héraðsdóms Reykjaness.

Forsaga málsins er sú að kaupandinn keypti íbúð á 52 milljónir króna og átti síðasta greiðslan upp á eina milljón að fara fram við útgáfu afsals tveimur mánuðum eftir afhendingu. Í upphafi þegar tilvonandi kaupandi skoðaði fasteignina, sem er í þriggja íbúða húsi, hafi seljandinn greint frá því að í einni íbúðinni byggi kona sem líklega væri veik á geði, en aldrei hafi komið til alvarlegra atvika.

Kaupandinn hafi hins vegar komist að því eftir að kaupin gengu í gegn að konan hafði hlotið dóm fyrir líkamsárás á hendur seljandanum og einnig gerst sek um eignaspjöll á eignum hans. Ekki hafði heldur verið greint frá því að aðrir íbúar hússins hafi samþykkt tillögu á húsfundi um að bera konuna og mann hennar, sem sat einn í hússtjórn, út á grundvelli laga um fjöleignarhús. Vegna formsatriða taldist húsfundurinn ólögmætur. Seljandinn ákvað að selja íbúðina í framhaldinu.

Kaupandinn taldi þetta jafnast á við galla á fasteign og ákvað að halda eftir síðustu greiðslunni. Héraðsdómur tók undir það og vísaði í 26. grein laga um fasteignakaup þar sem segir að fasteign teljist gölluð ef kaupandi hefur ekki fengið þær upplýsingar um hana sem seljandi vissi eða mátti vita um og kaupandi hafði réttmæta ástæðu til að ætla að hann fengi. Þetta gildir þó aðeins ef það hefur haft áhrif á gerð eða efni kaupsamnings að upplýsingarnar voru ekki veittar.

Seljendur áfrýjuðu til Landsréttar sem staðfesti héraðsdóm og taldi að þetta væru atriði sem þeim hafi borið að upplýsa. Samkvæmt dómskvöddum matsmanni teldist verðgildi eignarinnar fimm til átta prósentum lægra en ef eignin væri ógölluð. Seljendum var gert að greiða kaupanda 1,1 milljón króna í málskostnað. 

 
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV