Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Neitar sök í skotárás og skráður fyrir nokkrum byssum

03.02.2021 - 12:03
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Sextugur, fyrrverandi lögreglumaður er sá sem grunaður er um að hafa skotið á bíl borgarstjóra og skrifstofur Samfylkingarinnar með riffli. Maðurinn er dæmdur kynferðisbrotamaður, og hlaut uppreist æru árið 2010. Hann hlaut fangelsisdóm árið 2003 fyrir kynferðisbrot gegn þremur barnungum stúlkum. Hann er í gæsluvarðhaldi til föstudags.

Talinn hættulegur

Maðurinn var handtekinn á laugardag, um viku eftir að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tilkynnti til lögreglu að skotið hefði verið úr byssu í gegnum aftari farþegahurð fjölskyldubílsins fyrir utan heimili hans. Á svipuðum tíma hafði verið skotið með byssu í gegn um rúður skrifstofu Samfylkingarinnar í Sóltúni. Samkvæmt heimildum fréttastofu stundar maðurinn, sem grunaður er um verknaðinn, skotveiði og er skráður fyrir nokkrum byssum, riffli þar á meðal, en slíkt vopn er talið hafa verið notað í skotárásunum.

Fyrra gæsluvarðhald yfir manninum rann út á mánudag, en héraðssaksóknari fór fram á framlengingu til föstudags og féllst héraðsdómur á það. Það er á grundvelli tveggja liða, rannsóknarhagsmuna og að hann er talinn hættulegur öðrum. Úrskurðurinn var kærður til Landsréttar, en var vísað frá. 

Braut gegn börnum og fékk svo uppreist æru

Maðurinn, sem er ríflega sextugur Íslendingur, neitar sök. Hann er fyrrverandi lögreglumaður og var dæmdur í 18 mánaða fangelsi árið 2003 fyrir kynferðisbrot gegn þremur barnungum stúlkum. Sex árum síðar, 2009, sótti hann um uppreist æru til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, með sjö meðmælabréfum valinkunnra aðila, eins og það er orðað í umsókninni. Þar á meðal eru tvö bréf dagsett 2002, þar sem þáverandi aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirlögregluþjónn mæla með honum. Eitt bréfið virðist vera meðmæli vegna starfsumsóknar þar sem er sagt að hann sé góður starfsmaður og hverju fyrirtæki mikill fengur að fá til starfa. Ráðuneytið mælti svo með því til forseta Íslands 2010 að manninum yrði veitt uppreist æru, sem varð úr. Árið 2017 stigu þá brotaþolar hans opinberlega fram og tóku þátt í mikilli þjóðfélagsumræðu um uppreist æru.