Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Meira en helmingur Ísraela hefur fengið bólusetningu

03.02.2021 - 19:20
Mynd: EPA-EFE / EPA
Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni hefur 90 prósentum bóluefnis í heiminum verið dreift til þróaðri landa. Um helmingur ísraelsku þjóðarinnar hefur fengið fyrri sprautuna af bóluefni frá Pfizer.

Ísrael ber höfuð og herðar yfir aðrar þjóðir þegar kemur að fjölda bólusetninga miðað við íbúafjölda. Hátt í 60 af hverjum 100 íbúum landsins hefur þegar fengið fyrstu bólusetningu. Í byrjun árs var greint frá því að stjórn Netanyahus hefði gert samning við Pfizer sem tryggði öllum yfir 16 ára bólusetningu fyrir lok mars. Í Ísrael búa um níu milljónir. 

Í Sameinuðu arabísku furstadæmunum er búið að gefa um 35 af hverjum 100 búum landsins fyrstu bólusetningu. Þar á bæ er notast við kínverska bóluefnið Sinopharm, sem ekki hefur verið vottað af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

Upplýsingarnar eru fengnar úr gagnagrunninum Our World in Data sem vísindamenn hjá Oxford-háskóla halda utan um. Í þriðja sæti eru Seychelles-eyjar. Þar er búið að bólusetja um þriðjung af þeim 100 þúsund sem þar búa.  

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Grafík

 

Bretland er í fjórða sæti listans, þar hafa um 15 af hverjum 100 fengið fyrstu bólusetningu. Bretar voru þeir fyrstu til að samþykkja og nota bóluefni Pfizer/BioN-Tech í desember. Þar hafa hátt í fjórar milljónir fengið COVID og hátt í 110 þúsund látið lífið.

Konungsríkið Bahrain er svo í fimmta sæti, en þar hafa um tíu af hverjum hundrað fengið fyrri bólusetningu, annaðhvort frá Sinopharm eða Pfizer-BioNTech.

Þau eru ekki ýkja plássfrek á heimskortinu ríkin sem auk Bretlands hafa bólusett flesta til þessa. Yfirburðir auðugri ríkja til að tryggja sér bóluefni eru áhyggjuefni margra.

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni hefur 90 prósentum bóluefnis sem þegar er búið að framleiða verið dreift til þróaðri landa.

Yfirburðir Ísraels þegar kemur að bólusetningum hafa til dæmis verið gagnrýndir þegar borið er saman við Palestínu. Í gær bárust um 7000 skammtar af bóluefni frá Ísrael og Rússlandi fyrir heilbrigðisstarfsfólk á Vesturbakkanum og Gaza. 

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV