Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fleiri kvarta vegna galla í húsnæði

Mynd: RÚV / RÚV
Kvörtunum vegna galla á húsnæði hefur fjölgað hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Herdís Hallmarsdóttir lögfræðingur stofnunarinnar segir að skoða þurfi hvort ekki eigi að setja í lög ákvæði um að húsnæði sé skoðað og vottað áður en það er selt. 

Enginn veit hve margar fasteignir eru gallaðar

Gífurlega mikil velta var á fasteignamarkaði á síðasta ári. Fjórtán þúsund fasteignir skiptu um eigendur og er það mesta velta sem verið hefur í mörg ár. Enginn veit hve margar þessara eigna voru gallaðar því enginn stofnun eða opinber aðili heldur utan um slíkar upplýsingar. 

Herdís segir að umkvörtunum hafi fjölgað hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Fólk sem standi í fasteignakaupum ætti að gefa sér góðan tíma og skoða bæði fasteignina og þá sem þeir eru að skipta við mjög vel. En það getur verið erfitt því hraðinn á fasteignamarkaði hefur verið slíkur að eignir stoppa stutt við á sölu.

„Ég hef alveg heyrt þetta og get alveg tekið undir þetta að það sé ekki gott. Hraðinn sé orðinn of mikill miðað við þá hagsmuni sem eru undir fyrir fólk. Í flestum tilfellum er fólk að versla með aleiguna þegar það er að festa kaup á fasteign. Þannig að það skiptir miklu máli að vanda vel til og ef asinn er of mikill og hraðinn of mikill þá ætti það kannski að kveikja ákveðnar viðvörunarbjöllur.“

Reglur um ástandsskoðun fyrir sölu 

Víða erlendis hafa verið settar reglur eða jafnvel lög um að engin fasteignakaup eigi sér stað nema óháður matsmaður meti eignina og votti að hún sé í því ástandi sem seljandinn fullyrðir.

Herdís segir að ákvæði um slíkt hafi verið í frumvarpi um fasteignakaup fyrir nokkru en það hafi verið tekið út í meðförum Alþingis, sem vildi að  málið yrði skoðað betur.  „Telur þú mikilvægt að þetta ákvæði verði sett á hér á landi? Ég tel að það eigi að skoða það. Það eru auðvitað á þessu tvær hliðar. En það er alveg ljóst að það yrði til þess fallið að fólk vissi meira um þá eign sem það festir kaup á. Og kannski myndi þá fækka þessum göllum? Það væri auðvitað og tilgangurinn.“   

Ákvæðið var tekið út úr frumvarpinu á sínum tíma meðal annars vegna þess kostnaðar sem reglunum fylgdi. 

Draga þarf úr fúski og göllum

Fjallað var um fasteignir, raka og galla í Kveik í lok síðasta árs og var m.a. rætt við Ríkharð Kristjánsson verkfræðing sem fyrir nokkrum áratugum fór, ásamt kollegum sínum, í herferð gegn alkalískemmdum í steypu.  Ríkharð sagði í Kveik að það væri tímabært að hefja álíka herferð gegn rakaskemdum og fúski.  

Herdís segir að það sé markmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að draga úr öllu fúski og ágöllum í mannvirkjagerð eins og hægt sé. „Leiðin til þess er að reyna að samræma byggingaeftirlit í landinu öllu og vinna með byggingafulltrúunum þannig að tryggt sé að opinbera eftirlitð sé virkt og samræmt á öllu landinu. Síðan eru það líka upplýsingarnar sem við erum að reyna að koma fyrir á einum stað. Þannig að mannvirkjaskrá að þar getir þú fundið eins miklar og ítarlegar upplýsingar og hægt er um mannvirki. Því  ég held að það sé besta forvörnin að gera aðgengi að upplýsingum betra og þannig geti almenningur sjálfur veitt viðspyrnu við göllum og fúski.“