Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki fasteignasala að skipta sér af óleyfisbúsetu

Atvinnuhúsnæði með íbúðum. Mynd úr safni. - Mynd: RÚV / RÚV
Í nýrri skýrslu vinnuhóps húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er lagt til að fólki verði leyft að skrá aðsetur í atvinnuhúsnæði. Fasteignasali sem selur og leigir meðal annars íbúðir í atvinnuhúsnæði telur að það væri skref í rétta átt. Staða fólks sem leigir atvinnuhúsnæði sé oft erfið.

Fólk býr í atvinnuhúsnæði um allt land, allt að því 7000 manns. Svona hefur þetta verið árum saman og svona verður það líklega áfram á meðan skortur er á húsnæði. Slökkviliðið þarf að vita hvar þetta fólk býr svo hægt sé að bjarga því ef það kviknar í en eins og staðan er í dag má ekki skrá lögheimili eða aðsetur í atvinnuhúsnæði. Fólk skráir því lögheimili sitt annars staðar eða er skráð óstaðsett í hús hjá sveitarfélaginu. 

Atvinnuhúsnæði auglýst til íbúðar

Mörg dæmi eru um að fasteignasalar auglýsi til sölu eða leigu atvinnuhúsnæði sem augljóslega hefur verið búið í. Slíkt húsnæði er ekki ætlað til búsetu og óheimilt að skrá þar lögheimili en á myndum sem fylgja auglýsingunum má sjá óumbúin rúm og kornflexpakka. Hér er dæmi: „Fasteignasalan Hraunhamar kynnir glæsilegt, nýlegt, fullbúið bjart atvinnuhúsnæði, 120 fermetra auk millilofts. Góð lofthæð og 4 metra breiðar innkeysludyr. Góð staðsetning á Völlunum í Hafnarfirði.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot
Skjáskot af fasteignavef.

Í auglýsingunni er talað um vinnslusal og eldhús eða kaffistofu, stórt herbergi eða skrifstofu og glugga á efri hæð. Þegar myndirnar eru skoðaðar sést að innan við rennihurðina býr fólk, í eldhúsinu sem jafnframt hefur verið svefnherbergi, er fartölva, rúm, fataskápur og tungusófi. 

Fasteignasalan 450 er með á skrá hjá sér atvinnuhúsnæði við Suðurhellu í Hafnarfirði. „Innréttað skrifstofuhúsnæði eða íbúð á eftirsóttum stað. Mikil uppbygging á atvinnustarfssemi á þessum stað á næstu misserum,“ segir í auglýsingunni. Stofa og eldhús eru gluggalaus en gluggar á herbergjunum sem eru tvö. Verðið er lágt, miðað við 109 fermetra íbúð, bara 22,5 milljónir.

Slæmt að fólk fái ekki húsnæðisbætur

Helen Sigurðardóttir, löggiltur fasteignasali og leigumiðlari, er með þessa íbúð á söluskrá og hún hefur selt og leigt fleiri hús, sem skráð eru atvinnuhús en notuð sem íbúðarhús. Hvað finnst henni um að fjöldi fólks búi í atvinnuhúsnæði?  „Þegar kemur að leigueignum sem ég er að hjálpa fólki að leigja út þá er það náttúrulega sérstaklega slæmt þegar það kemur inn leigutaki að skoða íbúð og ég útskýri fyrir honum að hann geti ekki fengið húsnæðisbætur á eignina sem hann hyggst leigja. Í eitt skipti um daginn kom líka einstæð móðir, sem er með sérstakar húsaleigubætur. Það var bara ómögulegt fyrir hana að leigja þessa íbúð og þetta var íbúðin sem hún vildi leigja.“ 

Helen segir líka erfitt að greina fólki frá því að það þurfi að skrá lögheimili sitt og barna sinna annars staðar. „Maður tekur það alveg inn á sig í þessu starfi, vandamálin sem fólk sem leigir atvinnuhúsnæði lendir í, en hvað varðar söluna þá tek ég það auðvitað bara skýrt fram í söluyfirliti að eignin sé skráð sem atvinnuhúsnæði, svo er það bara eigendanna að ráða hvað þeir nýta húsnæðið í.“

Hún segir það ekki sitt, að skipta sér af því hvort fólk hyggst búa í ósamþykktu húsnæði eða leigja það út. „Þegar kemur að séreign einstaklinga ráða þeir auðvitað bara sjálfir hvernig þeir nýta sína séreign.“ 

Ódýrari en erfiðara að fjármagna kaupin

Helen segir að þetta henti sumum, sem vilja vera með iðnaðarbil í atvinnuhúsnæði og íbúð þar fyrir ofan, þá séu þeir örugglega til sem kjósi myrkur og gluggaleysi. Það er þó líka ljóst að margir neyðast til að leigja það ódýrasta sem er í boði.

Ósamþykktar íbúðir í atvinnuhúsnæði eru yfirleitt töluvert ódýrari en samþykktar en á móti kemur að fjármögnunin getur verið erfið. Bankarnir lána ekki á sömu kjörum og þegar fólk kaupir íbúð. 

Íbúðirnar eru misjafnar, innréttað atvinnuhúsnæði getur verið allt frá gluggalausum kytrum upp í hallir með heitum pottum. Aðalmálið, þegar kemur að öryggi, er að brunavarnir séu í lagi og það sé ekki einhver hættuleg starfsemi í næsta nágrenni.

Hvetur leigusala til að láta taka íbúðirnar út

Helen hefur leigt íbúðir í blönduðum byggingum, þar sem eru til dæmis verslanir, íbúðir og skrifstofur. Hún hvetur alla leigjendur og leigusala til að láta óháðan úttektaraðila fara yfir eignina við upphaf leigutíma, til dæmis með tilliti til brunavarna. „Er það ekki aðalmálið, brunavarnirnar. Ef þau atriði eru í lagi sé ég ekki hvers vegna fólk ætti ekki að mega búa í þessum eignum.“

Hún segist líka hafa hvatt skjólstæðinga sem leigja út ósamþykktar íbúðir til að athuga hvort hægt sé að fá þær samþykktar en að þrátt fyrir hærri fasteignaskatt á atvinnuhúsnæði, sjái þeir sjaldan hvata til að ráðast í nauðsynlegar breytingar, svo sé ekki alltaf hægt að fá samþykki fyrir því að breyta atvinnuhúsnæði í íbúðahúsnæði. „En þau munu samt halda áfram að leigja það út, í langtímaleigu, sem íbúðahúsnæði.“ 

Auðvelt umsóknarform á netinu

Hvað er til ráða? Helen telur að það þurfi að fá vottun um að atvinnuhúsnæði sé íbúðarhæft. „Eitthvað sem væri auðvelt fyrir eigandann að gera, auðvelt umsóknarform á netinu þar sem hann getur sótt um að fá úttekt á að þetta sé atvinnuhúsnæði í standi sem íbúðarhúsnæði, þá sé mögulega leigutakanum gert kleift að fá húsaleigubætur og skrá lögheimili sitt þar, væri ekki hægt að gera eitthvað svona innan sviga? Ég veit það ekki, en ég hugsa bara í lausnum.“

Vinnuhópur leggur til að fólk geti skráð aðsetur

Mynd með færslu
 Mynd: Markús Þórhallsson - RÚV
Bræðraborgarstígur 1.

Vinnuhópur um umbætur í húsnæðismálum var stofnaður eftir eldsvoðann á Bræðraborgarstíg, síðasta sumar, þar sem þrír létust. Húsnæðið var ósamþykkt og brunavörnum ábótavant. Í skýrslu hópsins, sem var birt á mánudag, er horft til svipaðrar lausnar og Helen leggur til. Að fólk fái að skrá aðsetur sitt í atvinnuhúsnæði að því gefnu að húsnæðið uppfylli ákveðnar kröfur, það yrði þá að endurskoða lög um lögheimili og reglur um þjónustu sveitarfélaga við íbúa. Forsvarsmenn hópsins segja að með þessu sé ekki markmiðið að samþykkja óleyfisbúsetu heldur viðurkenna stöðuna eins og hún er. Lagt er til að aðsetursskráningin verði tímabundin ráðstöfun, á meðan unnið verður á húsnæðisskortinum en talið er að það þurfi að byggja tæplega 2000 íbúðir á ári, næstu 20 ár til að mæta þörfinni á markaði.