Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir líkamsárás

Mynd með færslu
 Mynd: Eva Björk Benediktsdóttir - RÚV
Karlmaður á Akureyri hefur í Héraðsdómi Norðurlands eystra verði dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir að ráðast á barnsmóður sína. Þá skal hann greiða konunni 300 þúsund krónur í miskabætur.

Maðurinn var ákærður fyrir líkamsárás þegar hann sló barnsmóður sína ítrekað í andlitið þannig að hún hlaut talsverða áverka. Þetta var 13. ágúst 2018.

Maðurinn hefur fjórum sinnum áður verið dæmdur til fangelsisvistar, í öllum tilvikum fyrir umferðarlagabrot. Þá var hann dæmdur fyrir þjófnað í ágúst 2020.

Konan krafðist 1.5 milljóna króna í miskabætur og læknis- og sérfræðikostnað og í dómnum segir að hún eigi rétt á miskabótum. Er litið til þess að hún er barnsmóðir og fyrrum sambýliskona mannsins og þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 300.000 krónur.

Þá skal maðurinn greiða konunni 100.000 krónur í dómskostnað auk ríflega 31 þúsund króna í sakarkostnað.

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV