Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Brú myndi kosta 14 milljörðum minna en göng

03.02.2021 - 17:02
Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin
Starfshópur sem samgönguráðherra skipaði til að taka út kosti um lengu Sundabrautar segir að brú yrði fjórtán milljörðum króna ódýrari í framkvæmd heldur en göng undir sundin. Að auki yrði meiri umferð um brúna auk þess sem hún gæfi færi á almenningssamgöngum og því að hjólreiðafólk og fótgangandi færu um brúna en slíkt gengi ekki í göngum.

Brú yfir Kleppsvík myndi kosta 44 milljarða króna en göng undir hana 58 milljarða, samkvæmt úttekt starfshópsins. Kostnaður við brúar- og vegagerð frá Gufunesi yfir á Kjalarnes yrði 25 milljarðar króna hvor leiðin sem væri farin. Heildarkostnaður yrði samkvæmt því annað hvort 69 eða 83 milljarðar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti niðurstöður starfshópsins í dag, ásamt Guðmundi Val Guðmundssyni, formanni hópsins og þróunarstjóra Vegagerðarinnar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin
Hugmynd að Sundabraut frá 2004.

Helstu niðurstöður starfshópsins eru að 20 prósent meiri umferð verði um Sundabrú en Sundagöng og að brú dragi meira úr umferð um Gullinbrú og Ártúnsbrekku en göng. Mikilvægt sé þó að skoða nánar líklegar breytingar á dreifingu umferðar og hvernig bregðast eigi við mögulegum neikvæðum áhrifum á íbúahverfi á áhrifasvæði Sundabrautar.

Greiðari almenningssamgöngur á brú

Meðlimir starfshópsins telja að brú nýtist betur en göng fyrir leið eða leiðir almenningssamgangna innan höfuðborgarsvæðisins. Þannig gæti ný strætisvagnaleið um Sundabrú, til viðbótar við aðrar leiðir í nýju leiðaneti, fjölgað farlegum í almenningssamgöngukerfinu, stytt ferðatíma og mögulega fækkað skiptingum.

Báðir valkostirnir eru metnir raunhæfir en Sundabrú talin arðbærari en Sundagöng. Ekki er þó búið að gera arðsemisspá.

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir að brú myndi stytta ferðatíma allra á höfuðborgarsvæðinu. „Þetta er mjög jákvætt hvað varðar almenningssamgöngur. Þetta opnar líka möguleika fyrir fjölbreyttari ferðamáta, hjólandi og gangandi. Þannig að það eru kannski ekki síst þessir þættir, að bæta lífsgæði fólks og geta stutt við þessi markmið um auknar almenningssamgöngur og fjölbreyttari ferðamáta sem gera brúina enn betri valkost og það er enn betra að hún er mun ódýrari.“

Brú getur verið nokkuð smart

„Þetta er mannvirki sem sést nokkuð vel og skiptir máli að hönnun takist vel. Ég held að þetta geti orðið einhvers konar kennileiti sundanna og gæti verið áhugavert að líta á það sem slíkt,“ segir Sigurður Ingi. Hann segir að brú sé meira áberandi mannvirki en jarðgöng, ef undan eru skildir gangamunnarnir. „Brú getur verið nokkuð smart mannvirki í mínum huga.“

Nú er góður tími fyrir þessa framkvæmd þar sem íslenskt efnahagslíf þarf á innspýtingunni að halda, segir Sigurður Ingi. Þetta skipti hins vegar líka litlu máli um samgöngur, öryggi fólks og möguleika til að yfirgefa borgina ef eitthvað kæmi upp á.

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV

Meiri umferð á brú

Guðmundur Valur var formaður starfshópsins. „Það sem ræður kannski því að Sundabrúin er talin betri kostur en Sundagöngin er að hún kostar minna, munar um fjórtán milljörðum í stofnkostnaði. Það er mun meiri umferð á brúnni. Það er meiri notkun bæði fyrir bíla og hún gefur færi á göngu- og hjólaleiðum og strætóleiðum einnig. Hún styttir ferðatíma á höfuðborgarsvæðinu og akstursvegalengdir.“

Sundabrúin hefur áhrif á hafnarstarfsemi, einkum Samskipa. „Hugmyndafræðin er sú að undir brúnni geti öll venjuleg gámaumferð verið, þannig að athafna- og farmsvæðin séu í fullri notkun en að stærri gámaskip verði staðsett utan brúarinnar,“ segir Guðmundur Valur. Endanleg útfærsla brúar verði því að taka mið af þessu og annarri skipaumferð. Hann segir að síðustu þrjú ár hafi 200 skip lagt að bryggju innan hugsanlegrar brúar og örfá þeirra komist ekki undir brú með 30 metra siglingahæð.

Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin
Gömul hugmynd um Sundabraut, sem verið hefur til umræðu frá því um 1960.