Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

985 hermenn hér á landi í fyrra

03.02.2021 - 14:02
epa06746917 Panavia Tornado multirole fighters during the NATO Tiger Meet 2018 training, with the participation of the air squadrons from, among others, Poland, Italy, Spain, the Czech Republic, the Netherlands, Germany, Belgium, Hungary, Switzerland,
 Mynd: EPA-EFE - PAP
Alls voru 985 liðsmenn erlends herliðs samtals í 422 daga hér á landi í fyrra. Föst viðvera herliðs hér á landi hefur ekki komið til umræðu, enda ekki talin þörf á henni.

Þetta kemur fram í svari Guðlaugs Þ. Þórðarsonar utanríkisráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar þingmanns utan flokka um viðveru herliðs.

Árið áður voru hér á landi 1.344 liðsmenn erlends herliðs og árið 2018 voru þeir 863. Í svari ráðherra segir að yfirleitt sé ástæða þessarar veru stórar æfingar á borð við loftrýmisgæslu NATO, Trident Juncture eða Norður Víking og að meðallengd dvalar í tengslum við það sé 4-8 vikur. Sé um kafbátaeftirlit að ræða geti viðveran verið allt að sex mánuðir. Allir hermenn koma hingað án fjölskyldu sinnar og dvelja í skammtímagistingu.

Núna eru tveir hermenn með fasta viðveru hér - annar er hermálafulltrúi Bandaríkjanna sem starfar í sendiráði landsins, hinn er norskur tengiliður Atlantshafsbandalagsins og Noregs hér á landi.