Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Vísindaskáldskapur sem hittir í mark hjá þeim yngstu

Mynd: Miðnætti / Þjóðleikhúsið

Vísindaskáldskapur sem hittir í mark hjá þeim yngstu

02.02.2021 - 18:00

Höfundar

Sýningin Geim mér ei í Þjóðleikhúsinu er prýðileg sem fyrsta leikhúsupplifun barna, segir Snæbjörn Brynjarsson gagnrýnandi.

Snæbjörn Brynjarsson skrifar:

Geimurinn er stór og víðáttumikill. Þó svo mannkyn hafi enn ekki fundið líf á öðrum hnöttum, hefur það ekki hindrað okkur í að skálda fram aðra heima og jafnvel heilu stjörnustríðin. Enda er alheimurinn svo óhemjustór að þar er pláss fyrir hvað sem er, og einhvers staðar hljóta geimverur að leynast þó að mögulega séu þær eins og óendanlega smá nál í óendanlega stórum heystakk.

Það er ekki oft sem að vísindaskáldskapur ratar í sviðsverk. Ég man í fljótu bragði einungis eftir örfáum tilraunum til vísindaskáldskapar á íslensku sviði. Síðast þegar Sómi þjóðar sýndi gaman-geimóperur sínar í Tjarnarbíói fyrir nokkrum árum, en í nýlegu verki sem ætlað er börnum frá átján mánaða aldri kannar leikhópurinn Miðnætti furður himinhvolfanna og sýnir okkur líf á framandi hnöttum.

Sýningin Geim mér ei sem frumsýnd var í janúar í Þjóðleikhúsinu notar brúður sem Eva Björg Harðardóttir hannaði. Höfuðpersónan er stúlka á leikskólaaldri, hún Vala, sem ráfar út úr húsi þegar foreldrar hennar símasandi í símann veita henni ekki næga athygli og rekst á fljúgandi furðuhlut. Án þess að vita af geimverunni Fúmm um borð, hinum raunverulega eiganda vélarinnar gengur hún að takkaborðinu og fiktar í því með þeim afleiðingum að gripurinn tekst á loft. Við tekur ferðalag um himingeiminn þar sem Vala dáist að vetrarbrautinni og heimsækir framandi plánetur á tæpum fjörutíu mínútum að sjálfsögðu í fylgd með hinum krúttlega Fúmm.

Agnes Wild, leikstjórinn og leikhópurinn hennar er skráður fyrir sögunni sem er ósköp einföld enda ætluð yngsta aldurshópnum. Með mér í leikhúsinu voru frænkur mínar, ein fimm ára sem skemmti sér konunglega og hló býsna oft, enda virtist hún ná að tengja vel við höfuðpersónuna og geimáhuga hennar, og svo yngri systir hennar sem var ekki alveg orðin átján mánaða, sem engu að síður náði þó að fylgjast með stórum hluta verksins og hafa gaman af. Miðað við viðbrögð þeirra og annarra barna í salnum þá er þetta leikrit sem hæfir vel þroska allra leikskólaárganga, og er hvorki of hrikalegt né of langdregið.

Þetta er mjög líkamleg sýning, leikararnir sem standa dökkklæddir fyrir aftan brúðurnar holdgera viðbrögð þeirra, og aðalbrúðan hún Vala er innblásin af japönsku bunraku-hefðinni. Það getur verið jafn skemmtilegt að fylgjast með leikurunum og brúðunum, en þau Aldís Davíðsdóttir, Nicholas Arthur Candy, Þorleifur Einarsson og Agnes standa sig öll prýðilega í hlutverkum sínum. Þó svo margt sé litríkt og skemmtilegt í verkinu, og töfrandi og heillandi fyrir yngstu áhorfendurna þá hefði  ég gjarnan viljað sjá aðeins meiri frumleika í hönnun geimveranna, Völu og geimskipsins. Skipið er hinn erkitýpíski fljúgandi furðuhlutur og minnir örlítið á fleyið sem geimverurnar Kodos og Kang fljúga um á í Simpsons-þáttunum. Loðboltinn Fúmm virkar líka meira kunnuglegur en framandi, eins og blanda af skrímsli úr Pixar-mynd eða veru á Sesamstræti, og Völu sjálfri svipar mjög til Línu Langsokks í útliti. Að því sögðu er þetta allt haglega smíðað, og ég efast um að börnin í salnum tækju undir þetta ákall mitt um aukinn frumleika.

Tónlist Sigrúnar Harðardóttur við verkið verðskuldar töluvert lof. Hún er grípandi og hrífur áhorfendur með sér. Geim er ei er fínasta afþreying fyrir börn, ekki fræðandi, en heldur ekki leiðinleg. Leikhópurinn Miðnætti hefur sýnt í tímans rás að hann framleiðir vandað efni handa börnum, og ég set hann skör ofar en flesta aðra hópa í þeim geira. Leikgleðin er nefnilega til staðar en hún kemur ekki á kostnað fagmennsku, og ef frumleika skortir, sem auðvitað er huglægt mat, þá er alltaf vandað til verka, eins og til dæmis mátti sjá þegar Agnes leikstýrði sýningunni Karíus og Baktus í fyrra.

Það er því vel hægt  að mæla með þessu verki sem fyrstu leikhúsupplifun barna. Vel þroskuð börn á fyrsta ári leikskóla eiga eftir að finna eitthvað til að njóta, og það held ég að aldursflokkarnir fyrir ofan, og foreldrar þeirra geri líka.