Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Twitter lokar á fólk að beiðni indverskra stjórnvalda

02.02.2021 - 06:41
Erlent · Asía · Indland · twitter
epa08973000 Supporters of All Pakistan Minority communities of Khyber Pakhtunkhwa province shout slogans  during a protest in solidarity with Indian farmers' continuing protest against the Indian central government's recent agricultural reforms, in Peshawar, Pakistan, 29 January 2021. Indian farmers have been protesting across India, against the government of Indian Prime Minister Narendra Modi to repeal the three laws that liberalize prices, sales and the quantity of certain crops sold.  EPA-EFE/ARSHAD ARBAB
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnendur Twitter lokuðu aðgangi hundraða indverskra notenda að beiðni þarlendra stjórnvalda. Meðal þeirra sem hafa ekki lengur aðgang eru fréttamiðlar, aðgerðarsinnar og leikarar. Guardian greinir frá því að lokunin hafi varað í hálfan sólarhring vegna hvatninga til ofbeldis. 

Heimildir Guardian innan indverskra stjórnvalda herma að lokunin hafi náð til um 250 notenda Twitter. Aðgerð stjórnvalda var beint gegn þeim sem notuðu myllumerkið #modiplanningfarmersgenocide, eða Modi, forseti Indlands, áformar þjóðarmorð á bændum.

Indverskir bændur hafa mótmælt nýjum landbúnaðarlögum í landinu vikum saman. Átök urðu á milli bænda og óeirðarlögreglu í síðustu viku þar sem einn mótmælandi lést og hundruð slösuðust, þar á meðal lögreglumenn.

Lögin kveða á um opnun markaða á indverskum landbúnaðarvörum. Núverandi reglur hafa einangrað indverska bændur frá hinum frjálsa markaði áratugum saman. Bændurnir vilja meina að þeir eigi eftir að þurfa að treysta á náð og miskunn stórframleiðenda og nýju lögin eigi eftir að rústa lífsviðurværi milljóna fjölskylda. Stjórnvöld neita þessu alfarið og segja breytinguna eiga eftir að skapa ný tækifæri fyrir bændur.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV