Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stórauka kröfur og herða reglur um vegaframkvæmdir

02.02.2021 - 11:44
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Kröfur til þeirra sem sinna framkvæmdum fyrir Vegagerðina verða stórauknar og reglur um slíkar framkvæmdir verða hertar frá og með vorinu. Tilgangurinn er að auka öryggi, segir forstjóri Vegagerðarinnar. Þótt breytingarnar kosti töluvert segir hún að það komi ekki til með að bitna á almennu viðhaldi.

Vegagerðin kynnti málið á fundi sem var sýndur í beinu streymi í morgun. Þar var kynnt það sem kallað er stórauknar kröfur til verktaka og eftirlitsaðila með framkvæmdum þar sem lagt er út malbik og klæðing. Til stendur að gera ýmsar nýjar kröfur og auka aðrar, til að tryggja að ekki skapist aðstæður að lokinni framkvæmd sem geta reynst hættulegar vegfarendum. 

„Þetta er talsverð breyting. Og stærstu bitarnir eru þeir að við erum að auka fræðslu til þessara aðila sem eru að vinna fyrir okkur í nákvæmlega þeim kröfum sem eru gerðar til þeirra, ekki bara almenn þekking, og menn verða að gangast undir próf í því,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.

Minni breytileiki

Þá segir Bergþóra að verið sé að breyta eftirlitinu og faggilda það.

„Ég tel að þessar breytingar muni breyta miklu um það að framkvæmdir eru framkvæmdar á mjög einsleitan og skilvirkan hátt. Þannig að breytileikinn verður minni og ég tel að öryggi aukist við það.“

Rúmlega 300 manns fylgdust með fundinum og fundargestir báru upp fjölda spurninga í lok hans.

Bitni ekki á viðhaldi vega

Bergþóra segir að þessar breytingar kosti vissulega töluvert, en það þýði þó ekki að skera þurfi niður fé til almenns viðhalds á móti.

„Öll vinna kostar. En í mínum huga eru þetta algjörlega tímabærar breytingar sem við erum að fara í. Við lærðum nýja hluti og við bregðumst við þeim. Og ég held að það sé skylda okkar að gera það. Þannig að kostnaðurinn verður að liggja á milli hluta,“ segir Bergþóra.