
Starfsmenn Geysisbúða fengu hluta launa greiddan
Starfsmenn verslananna fengu bréf á sunnudagskvöld, þar var tilkynnt um uppsögn allra starfsmanna félagsins Arctic Shopping. í gær voru starfsmenn svo boðaðir á fund í verslun Geysis á Skólavörðustíg þar sem eigendur fóru yfir stöðuna. Verslanir Geysis eru sex talsins. Félagið Arctic Shopping rekur fimm þeirra og til viðbótar á félagið nokkrar verslanir sem einkum stíla inn á erlenda ferðamenn. Í frétt Vísis kemur fram að Geysisverslunin í Haukadal heyri undir annað félag, starfsfólk hennar haldi því vinnunni.
Uppsögnin telst hópuppsögn en starfsmenn Geysisverslananna telja nokkra tugi. Samkvæmt heimildum fréttastofu fengu starfsmennirnir einungis hluta launa sinna fyrir janúarmánuð greiddan, eða um 60% þeirra. Í frétt Stundarinnar kemur fram að stefnt sé að því að brúa bilið með tekjum helgarinnar.
Standa vörð um réttindi starfsmanna
Flestir starfsmenn eru félagar í VR og fulltrúar stéttarfélagsins sátu starfsmannafundinn í gær. Bryndís Guðnadóttir, forstöðumaður kjarasviðs VR, segir að félagið sé að afla upplýsinga um fjölda starfsmanna í samvinnu við fyrirtækið. VR ráðlagði starfsfólki að sækja strax um atvinnuleysisbætur og hyggst tryggja að það fái uppsagnafrest greiddan. Ef Arctic Shopping verður ekki úrskurðað gjaldþrota fljótlega verður ráðist í hefðbundnar innheimtuaðgerðir, en Bryndís segir forsvarsmenn Arctic Shopping stefna að því að það verði ekki meira óhagræði en þegar er orðið.
Heimsfaraldurinn þungur baggi
Geysis-verslanirnar skiluðu um hundrað milljóna hagnaði, bæði árin 2018 og 2017 en árið 2019 fór að halla aðeins undan fæti. Í umfjöllun Stundarinnar kemur fram að eigandi félagsins, Jóhann Guðlaugsson, hafi í bréfi sínu til starfsmanna, kennt heimsfaraldrinum og viðbrögðum stjórnvalda, um það hvernig fór. Arctic Shopping hafi glímt við mikla rekstrarörðugleika og tímabilið allt hafi einkennst af misvísandi upplýsingum um þróun veirunnar, sóttvarnir og möguleg lán eða styrki. Óvissan hafi þó farið hratt minnkandi með lækkandi sjóðstöðu félagsins.
Ekki náðist í Jóhann Guðlaugsson við vinnslu fréttarinnar.