Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Óttast að losni um krapann á yfirborði árinnar

02.02.2021 - 16:23
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RUV
Vatnshæðamælar við brúna yfir Jökulsá á Fjöllum sýna að vatnshæð hefur lækkað frá því síðdegis í gær. Sú lækkun getur verið vísbending um að áin sé að bræða krapann ofan af sér og losa þannig hægt og rólega um krapann á yfirborðinu. Óvissustig er enn í gildi, vegurinn lokaður og svæðið vaktað. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Þar sem þjóðvegur 1 er lokaður á löngu svæði þurfa ökumenn að fara norðurstrandaleiðina, en samkvæmt Vegagerðinni er hún um það bil 180 km lengri en leiðin um þjóðveginn.

Sérfræðingur hjá Vegagerðinni segir að ekki sé talin hætta á að brúin yfir ána fari, heldur að áin fari í rangan farveg, og yfir veginn.

Á vef Veðurstofunnar segir að vatnshæðin við brúna sé ennþá mjög há vegna krapans í ánni, en engu að síður renni áin undir honum. Vatnsrennslið sé um 100 m3/s sem er eðlilegt miðað við árstíma. Framvindan velti að miklu leyti á veðurástandi á svæðinu næstu daga, en þar er áfram gert ráð fyrir talsverðu frosti. Ekki er útilokað að aðrar krapastíflur séu að myndast sunnar í ánni.

Farið verður í eftirlitsflug til að kanna betur aðstæður í ánni. Gert er ráð fyrir að ákvörðun um vegaopnun verði tekin af Lögreglunni á Norðurlandi eystra eftir stöðufund viðbragðsaðila í fyrramálið.

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV