Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Navalny dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi

02.02.2021 - 17:36
Alexei Navalny í dómssal í dag. - Mynd: EPA / EPA
Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalny var í dag dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi. Fjöldi erlendra sendierindreka var viðstaddur réttarhöldin í dag.

Navalny hefur setið í fangelsi síðan hann kom til Moskvu frá Þýskalandi 17. janúar. Þar dvaldi hann á sjúkrahúsi eftir að honum var byrlað eitur í ágúst. Tilefni réttarhaldanna nú er að á meðan Navalny var í Þýskalandi kom hann ekki mánaðarlega á lögreglustöð í Rússlandi til að tilkynna sig, eins og honum ber, samkvæmt dómi frá 2014 fyrir fjársvik. Mannréttindadómstóll Evrópu telur þann dóm ekki á rökum reistan og sjálfur hefur Navalny oft sagt að dómurinn sé fyrirsláttur til að hindra þátttöku hans í stjórnmálum, en vegna dómsins getur hann ekki boðið sig fram í kosningum.

Fjöldi fólks kom saman við dómstólinn í dag og var viðbúnaður lögreglu töluverður enda hefur verið efnt til mótmæla víða um landið síðustu tvær helgar. Yfir þrjú hundruð voru handtekin við dómshúsið í dag.

epa08982231 Russian reinforced policemen detain Navalny supporters in downtown of Moscow, Russia, 02 February 2021. The visiting session of the Simonovsky city court decided to grant the Federal Penitentiary Service petition to replace the suspended sentence with a real one. 3.5 years in a general regime colony, while the time spent under house arrest during the investigation of the 'Yves Rocher' case must be credited. Thus, when the sentence comes into force, the term will be 2 years 8 months. Opposition leader Alexei Navalny was detained after his arrival to Moscow from Germany on 17 January 2021. A Moscow judge on 18 January ruled that he will remain in custody for 30 days following his airport arrest.  EPA-EFE/YURI KOCHETKOV
Mótmælt var eftir að dómurinn féll. Mynd: EPA-EFE - EPA

Ekki voru leyfðar myndatökur í dómssalnum en í rússneskum fjölmiðlum segir að Navalny hafi sagt að rússnesk stjórnvöld hafi vel vitað hvar hann hafi verið síðustu fimm mánuði. Hann hafi verið fangelsaður við komuna til Rússlands til að hræða aðra.

Fulltrúar fjölmargra sendiráða erlendra ríkja í Moskvu hlýddu á málflutninginn í dag, þar á meðal frá Svíþjóð, Noregi og Bandaríkjunum. 

Utanríkisráðherra Svíþjóðar fundaði með rússneskum starfsbróður sínum í dag. „Ég hef hvatt til þess að Alexei Navalny verði látinn laus og að rannsókn verði gerð á notkun þessa taugaeiturs. Þetta er að sjálfsögðu í takt við afstöðu ESB í málinu,“ sagði Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, við fréttamenn eftir fundinn með Sergei Lavov, utanríkisráðherra Rússlands. 

Dómurinn yfir Navalny árið 2014 var þrjú og hálft ár. Hann hafði þegar setið í stofufangelsi í tíu mánuði og því dróst sá tími frá dómnum í dag. Navalny þarf að sitja inni í tvö ár og átta mánuði. Fólk er að safnast saman í miðborg Moskvu að mótmæla og hafa nokkrir verið handteknir.

Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna, Þýskalands og Bretlands hafa kallað eftir tafarlausri lausn stjórnarandstæðingsins.

Lögmenn Navalny ætla með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.

Fréttin hefur verið uppfærð.