Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Nálægt því að afhjúpa leyndardóma Snorralaugar

Mynd: RÚV / RÚV

Nálægt því að afhjúpa leyndardóma Snorralaugar

02.02.2021 - 14:30

Höfundar

Snorralaug í Reykholti hefur lengi verið uppspretta vangaveltna um líferni eins fremsta rithöfundar í sögu Íslands, Snorra Sturlusonar. Snorri Másson og Jakob Birgisson, starfsmenn Árnastofnunar, hafa eflaust komist næst því að afhjúpa nýjar vísbendingar um þau veisluhöld sem skipulögð voru í laug skáldsins en eru nú komnir aftur á byrjunarreit.

Þegar sundskýla fannst við laugarbakkann vöknuðu gamlar vonir fornleifafræðinga um að skýra betur hvers konar maður Snorri var og hvers konar lífi hann lifði. Eftir nánari skoðun reyndist sundskýlan litríka þó vera af erlendum ferðamanni.

Blaðamaðurinn Snorri Másson og grínistinn Jakob Birgisson starfa báðir hjá Árnastofnun þar sem þeir hafa grúskað í miðaldahandritum og fræða börn um sögu þeirra og gildi. Þeir félagar, í samstarfi við KrakkaRÚV, hafa unnið fréttainnslög um handritin sem kallast Miðaldafréttir og eru hluti verkefnisins Handritin til barnanna. Miðaldafréttir eru vikuleg innslög í þættinum Húllumhæ þar sem þeir miðla handritafróðleik á nýstárlegan hátt og slagorð þeirra er: Í fréttum er þetta elst.

Í vor verður hálf öld frá heimkomu fyrstu handritanna og af því tilefni verður blásið til hátíðar og Handritin til barnanna nær hámarki. Markmið verkefnisins er að hvetja börn til sköpunnar og til að koma hugmyndum sínum á framfæri við umheiminn. Þetta er gert með fræðslu um skinnhandritin í Árnagarði, sögu þeirra, tilurð, efni og allt mögulegt þeim tengt.

Stefna á frekari rannsóknir

„Eftir að fyrsta sería er öll komin í loftið getum við ekki annað en bara hrósað happi yfir ágætu gengi efnisins,“ segja Snorri og Jakob eftir að hafa farið í skólaheimsóknir og deilt fróðleiknum um handritin með skólabörnum. „Samhliða því sem Miðaldafréttir voru sýndar í sjónvarpinu ferðuðumst við vítt og breitt um landið og fræddum grunnskólanema um þetta sama efni. Þar borgaði sig að hafa stundum verið í sjónvarpinu föstudaginn áður, þar sem sumir báru strax kennsl á mann sem manninn með stóru sundskýluna hans Snorra Sturlusonar í sjónvarpinu.“

Jakob og Snorri hafa ekki tæmt fróðleiksbrunninn enda af nógu að taka. „Nú leggjum við lokahönd á handrit að annarri seríu, og getum ekki beðið eftir að dúndra því efni í loftið, sem er enn betri en fyrri sería, ef þú spyrð okkur.“

Öll innslög í fyrstu þáttaröð Miðaldafrétta má finna á vef KrakkaRÚV.

Tengdar fréttir

Íslenskt mál

„Við erum Gísli Marteinn barnanna“

Íslenskt mál

Handritin til barnanna og börnin til handritanna