Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Mun fleiri smitaðir en staðfestar tölur segja

Mynd: EPA-EFE / ANSA
Í síðustu viku fór tala staðfestra kórónuveirusmita í heiminum yfir hundrað milljónir. Ragnar Bjartur Guðmundsson, markaðssérfræðingur, sem heldur úti ítarlegum gagnagrunni um heimsfaraldurinn, telur að raunveruleg tala smita sé á fimmta hundrað milljóna. Bogi Ágústsson ræddi við hann í Heimskviðum um farsóttina, mismunandi leiðir þjóða til að verjast veirunni, sænsku aðferðina svonefndu og fleira um COVID-19.

Staðfest smit yfir 100 milljónir

Forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, Tedros Adhanom Ghebreyesus, sagði fyrr í vikunni að fyrir réttu ári hefðu skráð tilfelli af COVID-19 verið innan við 1500, í þessari viku færi tala sýktra yfir 100 milljónir. Og það gerðist. Núna eru staðfest tilfelli tæplega 102 milljónir.

2,2 milljónir hafa látist úr COVID-19

Um 2,2 milljónir, hið minnsta, hafa látist í kórónuveirufaraldrinum til þessa. Af þeim hafa langflestir dáið í Bandaríkjunum, meira en 430 þúsund, en hlutfallslega hafa flestir dáið í smáríkinu San Marínó þar sem 65 hafa látist af völdum COVID-19, það svarar til þess að 1933 af hverri milljón íbúa hafi látist. Þetta hlutfall er næst hæst í Belgíu eða 1811 af hverri milljón. Samsvarandi tala á Íslandi er aðeins 79.

Ítarlegur gagnagrunnur

Þessar upplýsingar og margar aðrar má sjá í gagnagrunni sem Ragnar Bjartur Guðmundsson heldur úti og birtir á vefsíðunni vefgreining.is. Ragnar er stjórnmálafræðingur og hagfræðingur og vinnur við að rýna í gögn og breyta þeim í gagnlegar upplýsingar.

Flestir látist í Bandaríkjunum og Brasilíu

Langflestir hafa sýkst og dáið af völdum veirunnar í Bandaríkjunum. Þar eru skráð tilfelli 25 milljónir og tæplega 450 þúsund Bandaríkjamenn hafa látist úr COVID-19. Joe Biden, Bandaríkjaforseti, segir að þessi tala eigi eftir að hækka mikið. Næst flestir hafa látist í Brasilíu um 220 þúsund og um 155 þúsund bæði á Indlandi og í Mexíkó. Samkvæmt gagnagrunni Ragnars eru Bandaríkjamenn í 10. sæti þegar miðað er við mannfjölda. Hlutfallslega hafa fleiri dáið í Bretlandi, Tékklandi og Ítalíu svo dæmi séu nefnd. Ragnar uppfærir gagngrunninn reglulega.

Svíar skera sig úr á Norðurlöndum

Ef litið er á Norðurlöndin sérstaklega þá er þar mikill munur, langflestir hafa látist í Svíþjóð. Svíar höfðu vonast til að hafa komist yfir það versta í haust en önnur bylgja skall þá á þeim af miklum krafti. Svíar fóru lengst af aðrar leiðir en grannar þeirra og flestar aðrar þjóðir, minna var um lokanir og bönn.

Þrjú markmið Svía

Ragnar Bjartur Guðmundsson hefur skoðað viðbrögð Svía sérstaklega og ritað grein um hana í Kjarnann. Hann segir að færa megi rök fyrir að „sænska leiðin” hafi náð markmiðum sínum því meginmarkmiðið hafi verið að heilbrigðiskerfið réði við álagið. Annað markmiðið hafi verið að verja viðkvæma hópa og valda sem minnstri röskun á daglegu lífi fólks. Þetta markmið hafi ekki náðst. Þriðja markmiðið var að styðjast frekar við boð en bönn segir Ragnar, þetta sé inngróið inn í sænska kúltúrinn.

Erfitt að tala um „sænska leið”

Ragnar bendir á að Anders Tegnell sóttvarnalæknir hafi sagt að það sé ekki til nein „sænsk leið”. Svíar séu alltaf að endurskoða aðgerðir sínar og bregðast við þegar nýjar upplýsingar komi.

Koma illa út í samanburði við Norðurlönd en ekki eins í alþjóðlega

Dauðsföllum af völdum COVID-19 fer nú fækkandi í Svíþjóð og Anders Tegnell  segir að smitum fækki einnig sem og sjúklingum á sjúkrahúsum landsins. Svíar koma ekki vel út í samanburði við aðrar þjóðir á Norðurlöndum en í alþjóðlegum samanburði er staðan ekki eins slæm. Ragnar Bjartur Guðmundsson bendir á að þriðjudaginn 26. janúar hafi 23 af hverri milljón íbúa í Noregi legið á sjúkrahúsi vegna COVID-19, nærri tífalt fleiri Svíar hafi verið á sjúkrahúsi eða 206. Í Bretlandi hafi sambærileg tala hins vegar verið 562 af hverri milljón íbúa.

Yfir 100 þúsund látnir í Bretlandi

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, tilkynnti á þriðjudag að tala látinna í faraldrinum væri komin yfir 100 þúsund. Um mánaðamótin janúar-febrúar höfðu 104 þúsund látist úr COVID-19 á Bretlandi. Fimmtán hundruð tuttugu og fimm af hverri milljón íbúa Bretlands hafa látist, það er hæsta hlutfall meðal fjölmennra þjóða, hærra en í Bandaríkjunum og tvisvar og hálfu sinni meir en í Þýskalandi. Þar er talan 655, sem er svipað og á Írlandi.

Skildi með Írlandi og Íslandi

Lengi vel virtist ekki stór munur á áhrifum farsóttarinnar Írlandi og á Íslandi en á meðan nokkuð vel hefur gengið að ná tökum á útbreiðslu veirunnar hér á landi fóru hlutirnir úr böndunum á Írlandi.

Írar fóru tiltölulega vel út úr fyrstu bylgjunni, hins vegar hafa síðustu mánuðir verið alveg hrikalegir á Írlandi. Þarna hefur töluvert að segja þessi nálægð við Bretland og þetta er breska afbrigðið sem er að leika þá svona grátt.

Raunar fer staðfestum smitum fækkandi bæði í Bretlandi og á Írlandi enda hafa bæði ríkin gripið til strangra sóttvarnaaðgerða.

Skimun gríðarlega mikilvæg

Það er afar mismunandi hversu miklar upplýsingar heilbrigðisyfirvöld í löndum heims hafa um smit og útbreiðslu veirunnar. Ragnar segir lykilatriði að skima og rekja. Íslendingar hafi notið góðs af Íslenskri erfðagreiningu, smit hafi greinst fljótt, þannig hafi verið hægt að koma fólki í einangrun og sóttkví. Engin spurning sé að skimun og rakning séu gríðarlega mikilvæg vopn í baráttunni gegn kórónuveirunni.

Miklu fleiri smitaðir en staðfestur hefur verið

Ragnar Bjartur Guðmundsson telur líklegt að fjöldi smitaðra í heiminum sé mjög vanmetinn. Staðfest smit séu rúmlega hundrað milljónir, raunverulega talan sé miklu hærri. Fjölmargar rannsóknir bendi til þess að dánartíðnin af völdum COVID-19 sé líklega 0,3-0,5 prósent. Ef gert sé ráð fyrir að fimm prómill hafi látist þýði það að á fimmta hundrað milljónir hafi smitast af veirunni út um allan heim.

Bóluefni þróuð á mettíma

Nú hillir undir dögun í baráttunni gegn COVID-19, alvarlegasta heimsfaraldri í rúma öld, bóluefni hafa verið þróuð á mettíma. Deilur um dreifingu þess og forgangsröð, togstreita þjóða um hverjir fái fyrst, bera mannkyni ekki sérlega gott vitni.

Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, segir að það verði siðferðilegt skipbrot mannkyns verði fátækasti hluti heimsins skilinn eftir. Sjálfelska í dreifingu bóluefnis komi niður á þeim sem eru fátækir og berskjaldaðir. Eigingirni hitti líka sjálfa sig fyrir, farsóttin standi lengur og sömuleiðis mannlegar og efnahagslegar þjáningar.