Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Kalkþörungafélagið má framleiða 120 þúsund tonn á ári

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Íslenska Kalkþörungafélagið hefur fengið leyfi fyrir 120 þúsund tonna framleiðslu á kalki og öðrum afurðum. Þetta er 35 þúsund tonna aukning frá fyrra leyfi sem var gefið út fyrir þremur árum. Fyrirætlanir um að koma af stað vinnslu í Súðavík hafa dregist mikið.

Leyfið er gefið út fyrir vinnslu fyrirtækisins á Bíldudal á kalkþörungum sem eru unnir úr Arnarfirði. Halldór Halldórsson, forstjóri fyrirtækisins, segir að með þessu veðri þörf á að kaupa annan þurrkara í vinnslu fyrirtækisins þar. Stefnt hafi verið að þessu marki í þó nokkurn tíma og með þessu verður hægt að nýta betur það leyfi sem fyrirtækið hefur til efnisnáms í Arnarfirði. 

„Það er ekki eina ástæðan. Hin ástæðan er sú að áform okkar í Ísafjarðardjúpi, þeim hefur seinkað verulega. Það hefur tekið lengri tíma að vinna úr okkar umsóknum og umhverfismati og slíku en hefur verið áætlað. Það er ástæðan fyrir því að þurfum að nýta enn betur heimildir okkar í Arnarfirði," segir hann. 

Ætluðu að hefja starfsemi í Súðavík 2020

Fyrirtækið hefur stefnt að því að koma upp 120 þúsund tonna vinnslu í Súðavík í þó nokkurn tíma sem gæfi af sér þrjátíu til fjörutíu störf. Upprunaleg áætlun gerði ráð fyrir því að starfsemi myndi hefjast haustið 2020, sem gekk ekki eftir. Umhverfismati lauk fyrir um ári og nú liggur fyrir umsókn hjá Orkustofnun fyrir efnistöku í Djúpinu. Halldór vonast til að það gangi eftir fljótlega. 

„Þá getum við farið að semja við Súðavíkurhrepp um landfyllingu og bryggju og þá verður hægt að leggja drög að verksmiðjunni þar."

Enn fremur á eftir að tryggja orku til framleiðslunnar í Súðavík, en gert er ráð fyrir að full starfsemi þurfi tíu megawött af rafmagni á ári. 

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir