Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Jóhannes Haukur vill forsetann í Disney-málið

Mynd: RÚV / RÚV

Jóhannes Haukur vill forsetann í Disney-málið

02.02.2021 - 09:53

Höfundar

Jóhannes Haukur Jóhannesson leikari vill að ráðamenn þjóðarinnar auki þrýsting á Disney vegna vöntunar á íslenskri talsetningu á streymisveitunni Disney+. „Við megum ekkert við því að þetta verði eftir 10 eða 15 ár. Við verðum að fá þetta núna.“

Jóhannes Haukur er á meðal margra Íslendinga sem lýst hafa yfir vonbrigðum yfir skorti á talsettu efni á efnisveitunni Disney+, sem varð aðgengileg Íslendingum í fyrra. Hann bendir á að fyrirtækið eigi allar talsetningar sem hafa verið gerðar hér á landi, enda gerðar undir ströngum reglum frá Disney. 

„Það er búið að vera svo vel að þessu staðið í gegnum tíðina, eins og við þekkjum, íslensku talsetningarnar eru alveg frábærar,“ segir hann í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2. „Ég vil meina að þetta sé ekkert síðri menningararfur en handritin, kvikmyndirnar og bækurnar sem við eigum. Þetta er hluti af því líka. Það sem er að gerast núna er að tækninni fleytir fram. Nú er komin þessi streymisveita, þetta er framtíðin og allt í einu er íslenskan ekki með.“

Jóhannes Haukur skoraði á dögunum á ráðamenn þjóðarinnar um að beita sér í málinu og nú hefur Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, brugðist við og sent bréf á Bob Chapek, forstjóra Disney.

„Það er akkúrat það sem við þurfum,“ segir Jóhannes Haukur, því ekki virðist það duga til að almennir notendur kvarti. „Bragi Valdimar [Skúlason] benti á þetta fyrir mörgum mánuðum og þá hópaðist fólk saman og sendi pósta. En það er ekki hlustað á þetta.“

Jóhannes Haukur er ánægður með viðbrögð mennta- og menningarmálaráðherra en hann vill gefa í. „Bréfið sem Lilja sendi á forstjóra Disney er virkilega gott en ég held að við ættum að bæta í og fá forsetann í málið ... Af því að við erum ekki að fara fram á neitt sem er ósanngjarnt, þeir eiga þetta til og þurfa bara að gera þetta aðgengilegt.“

Hann efast ekki um að það standi til að bjóða upp á myndir og þætti á íslensku á efnisveitunni. Disney hefur raunar tekið eitt lítið skref í þá átt, en nýjasta mynd Pixar, Soul eða Sál, sem kom út rétt fyrir áramót er með íslensku tali og texta. Hættan sé þó sú að Ísland, vegna smæðar sinnar, verði eftir á.  „Við megum ekkert við því að þetta verði eftir 10 eða 15 ár. Við verðum að fá þetta núna.“

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Lilja skorar á Disney að talsetja og texta efni sitt

Kvikmyndir

Disney boðar nýja Stjörnustríðsmynd um jólin 2023

Stjórnmál

Mikilvægt að heyra íslenskt mál sem mest

Geri ekki kröfu um málkunnáttu fyrri kynslóða