Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hertar kröfur koma ekki í veg fyrir hált malbik

02.02.2021 - 20:14
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Öryggi vegfarenda verður aukið með því að Vegagerðin ætlar í vor að gera ítarlegri kröfur til verktaka sem malbika og sömuleiðis auka eftirlit. Forstjóri Vegagerðarinnar gefur ekki upp kostnaðinn en segir að hann verði ekki til þess að draga úr viðhaldi vega. Þetta þýðir samt ekki að hált nýlagt malbik heyri sögunni til. „Ég get ekki fullyrt það hundrað prósent en þetta minnkar líkurnar umtalsvert,“ segir verkefnastjóri hjá Vegagerðinni.

Tveir létust í umferðarslysi á Kjalarnesi síðasta sumar og talið er að orsökin hafi verið nýlagt og mjög hált malbik. Vegagerðin ákvað því að fara yfir sín mál og niðurstaðan var kynnt í dag.

Hún er að:

  • Aukar kröfur um eftirlit og til verktaka
  • Auka umsjón Vegagerðarinnar með verkum
  • Strangari kröfur verða um rannsóknir
  • Umferð verður ekki hleypt á veg fyrr en að lokinni öryggisúttekt og 
  • Merkingar verða bættar og hámarkshraði lækkaður þegar þurfa þykir

Allt þetta á að tryggja að lítill munur verði á því malbiki sem lagt er á vegi.

„Þannig að breytileikinn verður minni og ég tel að öryggi aukist við það,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.

Kostar þetta ekki allt eitthvað og þýðir það að það verði minna um viðhald vega?

„Öll vinna kostar en í mínum huga eru þetta algjörlega nauðsynlegar tímabærar breytingar sem við erum að fara í. Þannig að kostnaðurinn verður að liggja milli hluta,“ segir Bergþóra. 

En þýðir þetta að þið getið í minna mæli sinnt viðhaldi vega?

„Ég tel það ekki,“ segir Bergþóra.

Í vor þegar Vegagerðin byrjar að malbika verða sett upp ný skilti sem sýna að akreinin er nýmalbikuð og þegar það rignir eða er blautt á getur malbikið verið hált og leiðbeinandi hámarkshraði er fimmtíu kílómetrar.

„Stefnan er að þetta verði ekki langur tími. Þetta verði klukkutímar eða í mesta lagi nokkrir dagar sem þessi skilti verða uppi,“ segir Birkir Hrafn Jóakimsson, verkefnisstjóri hjá Vegagerðinni.

Þetta þýðir samt ekki að hált nýlagt malbik heyri sögunni til?

„Ég get ekki fullyrt það hundrað prósent en þetta minnkar líkurnar umtalsvert,“ segir Birkir. Með auknu eftirliti eigi gallar á malbiki að uppgötvast mun fyrr í ferlinu.
>>