Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Facebook ekki besti vettvangurinn til viðskipta

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist
Karlmaður var um helgina úrskurðaður í tæplega mánaðar gæsluvarðhald vegna meintra fjársvika á Facebook. Forstöðumaður nýrrar netöryggissveitar Póst- og fjarskiptastofnunar segir netglæpi á samfélagsmiðlum hafa færst mjög í aukana undanfarna mánuði. Á sölusíðum miðlanna sé engin neytendavernd.

 

Hvetur til árvekni

Lögreglan fór fram á tæplega mánaðar gæsluvarðhald yfir manninum og Héraðsdómur Reykjavíkur varð við því. Hann er grunaður um að hafa boðið varning til sölu á Facebook undir ýmsum nöfnum, þegið greiðslu en aldrei afhent hlutina. Lögreglan segir málið ekkert einsdæmi, og minnir fólk á að sýna árvekni í netviðskiptum. Netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar, CERT-ÍS, hefur líka orðið vör við fjölgun þessara glæpa. Guðmundur Arnar Sigmundsson forstöðumaður segir þá hafa stóraukist síðustu mánuði. „Fyrir litla peninga og með lítilli þjálfun er hægt að herja á saklausa aðila, sérstaklega í gegnum samfélagsmiðla.“ 

Fólk villi á sér heimildir, þykist jafnvel vera þekktir aðilar, tónlistarmenn að selja miða á tónleika eða hönnuðir að selja merkjavöru. „Og þar sem þetta er búið að færast inn á samfélagsmiðla, þar sem venjulega ríkir minna traust, er fólk kannski ginkeyptara fyrir því að fylgja málinu eftir og millifæra pening,“ segir Guðmundur. Hann brýnir fyrir fólki að falla ekki fyrir gylliboðum og greiða helst ekki fyrr en það hefur fengið vöruna afhenta eða séð hana og sannreynt að seljandinn sé sá sem hann segist vera.  

Skortir neytendavernd á Facebook

Facebook, er farið að leggja töluvert upp úr sérstökum sölusíðum en Guðmundur segir samfélagsmiðilinn ekki besta vettvanginn til viðskipta. Þar sé engin neytendavernd. „Það sem fólk er að selja og kaupa á Facebook er svolítið á ábyrgð þeirra aðila sem taka þátt í þeim viðskiptum, ólíkt Ebay og öðrum aðilum sem eru að gera út á endursölumarkað og bjóða upp á ýmsar leiðir til þess að tryggja kaupanda og seljanda.“ Hann segist ekki vita til þess að Facebook hyggist bæta úr þessu en segir að það væri æskilegt.  

Hægt er að nálgast leiðbeiningar um hvernig best er að haga sér í viðskiptum á netinu á vefsvæði netöryggisveitarinnra.