Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Allir húsaleigusamningar verði skráðir í gagnagrunn

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Stefánsson - RÚV
Félagsmálaráðherra segir sláandi að sjá hversu margir búi í ólöglegu íbúðarhúsnæði á Íslandi. Hann vonast til að nýtt húsaleigufrumvarp bæti yfirsýnina og skýri regluverkið. Koma á tillögum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til framkvæmda í vor.

Húsnæðisskortur neyðir fólk í ólöglegar íbúðir

Á Íslandi búa á bilinu 5.000 til 7.000 manns í ósamþykktu íbúðarhúsnæði eða atvinnuhúsnæði. Atvinnulaust lágtekjufólk er stærsti hópurinn og eru íbúðirnar á bilinu 1.500 til 2.000 talsins, samkvæmt nýrri úttekt. Aðstoðarforstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar segir þetta fullkomlega óviðunandi og forseti ASÍ segir þetta ógn við heilsu og líf fólks, eins og sýndi sig í brunanum á Bræðraborgarstíg í sumar, þar sem þrír létust. 

Í skýrslunni segir að skortur á leiguhúsnæði og há leiga sé líkast til veigamesta skýringin. Þá eru dæmi um að starfsmannaleigur og atvinnurekendur komi starfsmönnum sínum fyrir í óleyfisbúsetu, og að fólk hafi jafnvel ekki raunverulegt val um búsetu. Hluti erlends verkafólks sem dvelst tímabundið á landinu vegna vinnu kýs jafnframt hreinlega að búa tímabundið í eins ódýru húsnæði og mögulegt er, og gerir litlar kröfur til húsnæðisins.

Skráning allra húsaleigusamninga

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir þetta grafalvarlegt mál. 

„Við erum kannski ekki með góð tæki til þess að fylgjast með þessu og það er eitt af því sem er verið að leggja til í nýju húsaleigufrumvarpi, að taka upp miðlægari skráningu á öllum húsaleigusamningum,” segir hann. „Það er auðvitað sláandi hversu margir er þarna um að ræða, en um leið vitum við að það hefur verið mikill húsnæðisskortur og þegar slíkar aðstæður eru þá eru meiri líkur á svona löguðu.”

Ætlar að koma breytingum í framkvæmd í vor

Í úttektinni, sem var birt í gær, er meðal annars lagt til að fjöldatakmörk verði sett á lögheimilisskráningar og að allir leigusamningar verði skráðir í gagnagrunn. 

„Eftir brunann á Bræðraborgarstíg þá óskaði ég sérstaklega eftir því við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem er framkvæmdaaðili stjórnvalda á sviði húsnæðismála, að þeir ynnu ákveðnar tillögur að aðgerðum til þess að ná betur utan um akkúrat þessi atriði á húsnæðismarkað,” segir Ásmundur. „Og ég veit að það er tillagna að vænta til ráðherra síðar í þessum mánuði og ég hyggst síðan fylgja þeim fast eftir og koma þeim til framkvæmda nú á vorþingi.”