Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja meira viðhaldsfé til Vegagerðarinnar

Samgönguráðherra segist jákvæður fyrir gangagerð á milli þéttbýla á sunnanverðum Vestfjörðum. Hámarkshraði á hluta Bíldudalsvegar hefur verið lækkaður síðustu mánuði vegna ónýts slitlags. Vestfirðingar fagna jákvæðni gagnvart gangagerð en vilja aukið viðhaldsfé til Vegagerðarinnar.

Á tveimur köflum Bíldudalsvegar á milli Bíldudals, Tálknafjarðar og Patreksfjarðar hefur hámarkshraði verið lækkaður úr 90 niður í 30. Slitlagið þar er mikið skemmt og sums staðar farið af með öllu. Vegurinn er ónýtur og þörf á að endurbyggja um tíu kílómetra kafla, sem myndi kosta hátt í milljarð króna. Á milli þéttbýlanna eru tveir fjallvegir; Miklidalur og Hálfdán, sem fólk fer um á hverjum degi til að sækja vinnu og þjónustu. 

Ráðherra jákvæður fyrir gangagerð

Samfélagið á sunnanverðum Vestfjörðum hefur kallað eftir að göng komi í stað þessara fjallvega.

„Það er eitt af því sem hefur verið ávarpað af heimamönnum, sveitarstjórn, og hefur komið til okkar og verður án efa tekið til skoðunar í næstu samgönguáætlun,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra.

En hvernig líst þér á þetta?

„Ég held að framtíðin liggi í því að bora göt í gegnum fjöll og stytta þannig leiðir með öruggari hætti en að fara í gegnum fjallgarða.“

Vilja aukið viðhaldsfé

Bæði Tálknafjarðahreppur og Vesturbyggð hafa kallað eftir jarðgöngum hingað á sunnanverða Vestfirði. En jafnvel þótt að göng fari á áætlun þá þarf samt að keyra þessa erfiðu fjallvegi í þó nokkurn tíma í viðbót og burtséð frá mögulegum göngum, þá er hættunni boðið heim með ónýtum vegum þar sem miklir þungaflutningar fara um á hverjum degi. 

„Það sem stendur okkur næst er að tryggja Vegagerðinni fullnægjandi framlög til að tryggja öryggi farþega sem fara um þessa vegi,“ segir Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð.

Mætti jafnvel velta því upp að það er ekki einungis þessi vegur sem er undir í þessum málum?

„Nei, við sjáum líka skemmdir bæði hérna í Patreksfirði í botninum, á Kleifaheiði og Barðarströndinni. Þannig það eru margir kaflar sem er farið að sjá á og mikilvægt að það verði veitt viðhaldsfé í að lagfæra þessa vegi.“

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir