Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Vesturbyggð stefnir Arnarlaxi vegna vangoldinna gjalda

DCIM\100MEDIA\DJI_0005.JPG
 Mynd: Vesturbyggð
Sveitarfélagið Vesturbyggð hefur stefnt Arnarlaxi vegna vangoldinna aflagjalda. fyrirtækið hefur greitt inn á kröfur sveitarfélagsins í takt við eldri gjaldskrá, sem ekki er lengur í gildi. Fyrirtækið segir skorta gagnsæi á hvert gjöldin renna.

Vesturbyggð breytti gjaldskrá aflagjalda í höfnum sveitarfélagsins fyrir 2020 á þann veg að mið er tekið af Nasdaq-vísitölu eldisfisks. Arnarlax, sem stundar fiskeldi í Arnarfirði og Patreksfirði og nýtir þjónustu hafna Vesturbyggðar telur að sveitarfélagið hafi ekki lagalega heimild til að heimta aflagjöld af fyrirtækinu, né til að byggja gjaldskrána á Nasdaq. Nota hefði átt upplýsingar um verðmæti eldisafla fyrirtækisins sjálfs, eins og var gert fram að því. Fyrirtækið neitar því að fylgja nýju gjaldskránni. 

Rebekka Hilmarsdóttir er bæjarstjóri í Vesturbyggð. 

„Núna erum við bara í þessari stöðu að þetta fyrirtæki hefur ekki staðið við sín lögbundnu gjöld.“

Fyrirtækið hefur engu að síður greitt gjöld en þá í samræmi við eldri gjaldskrá út frá eigin útreikningum. Út af stendur mismunurinn, um átján milljónir króna með vöxtum. 

„Þannig að þeir hafa sannarlega greitt inn á kröfurnar en ekki greitt í fullu samræmi við gildandi gjaldskrá.“

Segja erfiðlega hafa gengið að fá upplýsingar frá fyrirtækinu

Vesturbyggð ákvað að miða gjöldin við Nasdaq-vísitöluna annars vegar til að tryggja jafnræði milli fiskeldisfyrirtækjanna tveggja sem eiga í viðskiptum við sveitarfélagið og hins vegar af því að erfiðlega hefði gengið að fá upplýsingar frá Arnarlaxi. Kristín Edwald, lögmaður Arnarlax, segir það ekki rétt. 

„Þær upplýsingar hafa alltaf legið fyrir og verið veittar lögum samkvæmt. Að sjálfsögðu á jafnræði að gilda um þetta, það er að segja að Vesturbyggð verður að geta rökstutt þjónustugjöldin gagnvart öllum þeim sem er að greiða þau.“

Gagnsæi skorti á hvert gjöldin renna

„Fyrirtækið er að sjálfsögðu tilbúið og hefur greitt fyrir þá þjónustu sem það sannarlega fær. Á þessu tímabili hefur Arnarlax greitt í kringum áttatíu milljónir til hafnarsjóðs Vesturbyggðar.“