Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Talinn hættulegur og gæsluvarðhald framlengt

01.02.2021 - 17:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Héraðssaksóknari hefur tekið við máli manns sem er grunaður um að hafa skotið með riffli á bíl borgarstjórans og inn um rúður á skrifstofum Samfylkingarinnar. Hann hefur áður komið við sögu lögreglu. Gæsluvarðhald yfir manninum var í dag framlengt fram á föstudag á grundvelli rannsóknarhagsmuna og vegna þess að hann er talinn hættulegur.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók manninn á laugardag og var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald þar til í dag. Héraðssaksóknari, sem tók við málinu af lögreglu í dag, fór fram á áframhaldandi gæsluvarðhald og var það samþykkt.

Íslendingur á sextugsaldri

Maðurinn er Íslendingur á sextugsaldri og hefur áður komið við sögu lögreglu, samkvæmt heimildum fréttastofu. Farið var fram á framlengt varðhald á grundvelli a og d liðar, það er vegna rannsóknarhagsmuna og vegna þess að varðhald er talið nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum hans. Gæsluvarðhaldið rennur út klukkan 16 á föstudag. 

Annar maður var sömuleiðis handtekinn á laugardag, en honum var sleppt að lokinni yfirheyrslu. Samkvæmt heimildum fréttastofu er ekki talið að mennirnir tveir tengist. 

Uppfært kl. 18:32: Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt.