Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Skotið á bíl borgarstjórans í Reykjavík

01.02.2021 - 16:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Maður, sem var handtekinn á laugardaginn, er grunaður um að hafa skotið á bíl borgarstjórans í Reykjavík. Hann er líka talinn hafa skotið á skrifstofu Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Tveir handteknir á laugardag

Tveir menn voru handteknir á laugardaginn. Öðrum þeirra var sleppt eftir yfirheyrslu. Óskað var eftir að hinn maðurinn yrði settur í gæsluvarðhald.

Lögreglan vill mjög lítið segja um rannsóknina á málinu. Fréttastofa RÚV hefur upplýsingar um að byssur hafi fundist heima hjá öðrum manninum. Þar á meðal tveir rifflar.

Skotið á einkabíl borgarstjóra

Í síðustu viku var unnið skemmdarverk á fjölskyldubíl Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra í Reykjavík. Skotið var úr byssu í gegnum farþegahurð á bílnum. Talið er að bíllinn hafi verið á bílastæði við heimili Dags þegar skotið var á hann.

Nokkru áður var skotið á rúður á skrifstofu Samfylkingarinnar við Sóltún í Reykjavík. Starfsfólk á skrifstofunni tók eftir því þegar það mætti til vinnu. Dagur er fulltrúi Samfylkingarinnar í borgarstjórn Reykjavíkur.

Myndband fjarlægt af You Tube

Hópur sem kallast Björgum miðbænum setti fyrir nokkru myndband á streymisveituna You Tube. Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, er þulur í myndbandinu. Hún talar um kostnað við framkvæmdir við Óðinstorg, nálægt heimili borgarstjóra. Myndbandið var fjarlægt af Youtube í morgun. Bolli Kristinsson tilheyrir hópnum Björgum miðbænum. Hann baðst afsökunar á að hafa dregið athygli að heimili Dags. Borgarstjóri segir að myndbandið hafi gert heimili hans að skotskífu. Vigdís vildi ekki veita fréttastofu viðtal en sagði að það væru engin tengsl á milli myndbandsins og skotárásanna á fjölskyldubíl Dags og skrifstofur Samfylkingarinnar.