Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Prúðasti leikmaður McDonalds vinnur sigur

Mynd: Anton Brink / RÚV

Prúðasti leikmaður McDonalds vinnur sigur

01.02.2021 - 10:26

Höfundar

Halldór Armand Ásgeirsson rifjar upp dularfullt atvik frá unglingsárum sínum, atvik sem sannfærði hann um að glæpir borgi sig.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Sumarið áður en ég byrjaði í áttunda bekk var ég á gangi á sólríkum sunnudegi í miðju íbúðarhverfi einhvers staðar austur af Snorrabrautinni. Ég var eiginlega ennþá að jafna mig á þeirri niðurlægingu sem ég hafði orðið fyrir um vorið þegar ég hlaut svonefnd Prúðmennskuverðlaun McDonald’s á uppskeruhátíð íþróttafélags í hverfinu. Þetta þóttu mér hallærislegustu einstaklingsverðlaun sem ég hafði nokkurn tímann heyrt um. Það var besti leikmaðurinn og efnilegasti leikmaðurinn og síðan prúðasti leikmaður McDonald’s, hann litli ég. 

Ég man þetta eins og þetta hafi gerst í gær. Ég er að labba í einstefnugötu og það er enginn á ferli. Allt í einu heyrist kallað: „Hey, þú!“ Ég sný höfði mínu til hliðar og horfi í átt að einu húsinu. Hjarta mitt tekur kipp. Þar stendur í dyragætt strákur úr skólanum mínum sem var einu ári eldri en ég. Og ekkert bara hvaða náungi sem er. Þetta var strákur sem við vorum allir skíthræddir við. Ég breyti nöfnum og götuheitum í þessari sögu og kalla hann hér Robba. Robbi var hraustur strákur og hávaxinn sem kallaði ekki allt ömmu sína. Hann var ekki skólalóðarhrekkjusvín eða neitt slíkt. En hann réði öllu og var mjög ógnvekjandi vegna þess að hann var viðloðandi hluti sem … hvað skal segja, ekki margir grunnskóladrengir eru viðloðnir. Hann var byggður eins og fullorðinn maður meðan ég sjálfur var eins og gangandi kústur, stöng með hárlubba. „Komdu hingað!“ kallar hann á mig. Ég fann kalt vatn renna milli skinns og hörunds, ég hafði aldrei talað við hann áður og læddist með fram veggjum þegar hann var nærri á skólalóðinni. En ég – prúðasti leikmaður McDonald’s – þorði auðvitað ekki annað en að gera það sem hann sagði. Það hefði verið óðs manns æði að hlýða honum ekki. Svo ég fikra mig upp tröppurnar sem liggja að húsinu hans, bljúgur á svip, tilbúinn að mæta þeim örlögum sem mér eru ætluð. „Bíddu hérna,“ segir hann og hverfur inn í húsið. 

Hann snýr aftur skömmu síðar með veglegan kassa í fanginu. „Farðu með þetta í Rósagerði 8. Dinglaðu á bjöllu sem á stendur Jóhanna. Spurðu eftir Halla.“ Svo skellir hann hurðinni í andlitið á mér. Þarna stóð ég þrettán ára gamall á útidyratröppum með stóran kassa í fanginu sem ég sá ekki betur á umbúðunum en að innihéldi nýjan skanner. Rósagerði 8 var ekki langt í burtu. Þetta var gata í sama hverfi og það tók mig ekki nema svona sjö mínútur að labba þangað. Svo þangað þramma ég með skannerinn í fanginu, skíthræddur um að missa hann og bara skíthræddur um að klúðra þessu furðulega verkefni sem örlögin hafa falið mér. 

Ég finn Jóhönnu á bjöllunni á Rósagerði 8 og dingla. Þetta er blokk. Dyrasíminn suðar og dyrnar aflæsast. Ég held upp stigann með skannerinn. Kona nokkur tekur á móti mér þegar ég kem upp á þriðju hæðina. „Get ég hjálpað þér?“ segir hún. „Býr hann Halli nokkuð hér?“ svara ég feimnislega og bæti síðan við í höfði mínu: „Segðu honum bara að prúðasti leikmaður McDonalds sé að spyrja eftir honum.“ Stuttu síðar kemur bólugrafinn og fýldur unglingur með hálflokuð augu fram í dyragættina, á að giska 16 ára. „Hæ, ég er með sendingu til þín frá Robba,“ segi ég og reyni að hljóma pínulítið töffaralega. „Já, flott, takk,“ muldrar Halli, tekur við skannernum og hverfur aftur inn í íbúðina. 

„Er þér ekki fullheitt í þessari úlpu?“

Þá var þessu furðulega verkefni lokið. Hvað átti ég að gera núna? Fara aftur heim til Robba, banka upp á og segja honum að ég væri búinn að þessu? Nei, honum þætti það örugglega mjög pirrandi. En það var ekki heldur eins og Halli hefði látið mig fá kvittun. Ég hafði engar sannanir fyrir því að ég hefði gert það sem Robbi sagði mér að gera. Nú voru góð ráð dýr fyrir prúðasta leikmann McDonald’s. En það var ekkert annað í stöðunni en að vona það besta. Hlustendur skilja kannski núna af hverju við strákarnir í skólanum vorum dauðhræddir við Robba. Þetta sumarið var hann á leiðinni í 9. bekk og hann var að selja þýfi á borð við glænýjan skanner til eldri unglinga í hverfinu. Hann var í soldið öðrum og þróaðri pakka en dæmigerður vandræðaunglingur sem fiktar við að sniffa lím í undirgöngum og stelur kokteilsósu úr Hagkaup.

Svo líður sumarið og ég byrja í áttunda bekk um haustið. Robbi var þá í 9. bekk. Eins og gefur að skilja stóð til að busa okkur busastrákana vandlega. Svo þegar fyrsta almennilega snjókoman féll um veturinn stilltum við okkur niðurlútir upp eins og gúlagfangar á unglingaganginum. Strákarnir í 9. bekk skiptust síðan á að draga okkur einn af öðrum út, fella okkur ofan í skafl og troða snjó inn á okkur og í andlitið. Röðin var komin að mér. Strákur sem hét Hjalti, sem síðar átti eftir að verða Íslandsmeistarii í golfi, þreif í hnakkadrambið á mér og sagði: „Jæja, Dóri, er þér ekki fullheitt í þessari úlpu?“ og byrjaði að drösla mér að útidyrunum. Þegar við vorum í dyragættinni heyrðist allt í einu kallað frá unglingaganginum: „Hjalti! Ekki hann. Ekki þennan.“ Þetta var Robbi. Hjalti leit furðu lostinn á hann, síðan á mig, og sleppti mér síðan án þess að segja nokkuð. Síðan fylgdist ég með öllum vinum mínum þar sem þeir voru dregnir eins og hundar út í snjóinn og komu síðan kafrjóðir, ískaldir og sárir inn aftur eftir misþyrmingarnar í skaflinum.

Sama gerðist nokkrum vikum síðar þegar við busastrákarnir vorum boðaðir upp í Öskjuhlíð þar sem tússað var framan í okkur og við vorum látnir drekka ógeðisdrykki. Robbi var ekki einu sinni þarna. Hann var of stór fyrir svona kjánalæti. En aftur var ég látinn í friði. Eldri strákanir tóku mig ekki og það var augljóst að Robbi hafði sagt þeim að það ætti ekki að snerta mig. Þegar vinir mínir spurðu mig síðan af hverju ég hafði eiginlega sloppið við martröðina yppti ég bara öxlum. 

Næstu misserin gaf þetta mér eitthvert áður óþekkt sjálfstraust á skólalóðinni. Ég var að upplifa í fyrsta skipti hvernig það er að vera undir verndarvæng einhvers afls sem enginn storkar, að fá sérmeðferð sem maður á ekki skilið. Ég talaði aldrei aftur við Robba, ég yrti aldrei á hann og hann ekki á mig. En ég fann fyrir nærveru hans á skólalóðinni og á götunum í hverfinu. Á þessum aldri er hverfið manns allur heimurinn og mér fannst ég vera öruggur því ég vissi að ef eitthvað fáránlegt kæmi upp á eða ef einhver myndi fara að abbast upp á mig þá myndi Robbi sjá um prúða sendilinn sinn. Ég hafði líka staðið við mitt. Ég sagði engum frá þessu. 

Glæpir borga sig

Og það sem mér finnst merkilegt enn þann dag í dag við þessa lífsreynslu er að ég man svo vel hvað mér líkaði þetta vel, hvað þetta var einstök tilfinning. Ég man hvað ég var stoltur af sjálfum mér, hvað mér fannst ég töff, að allt í einu var prúðasti leikmaður McDonald’s í liði með mesta harðjaxlinum í hverfinu. Ég hafði tekið þátt í einhverju ólöglegu, gert eitthvað sem var bannað og uppskorið mjög ríkulega fyrir það. Ég lærði ekki bara að glæpir borga sig heldur líka að það jafnast ekki margt á við það að fá sérmeðferð og virðingu sem þú átt ekki skilið, að reglur sem gilda um aðra gildi ekki um þig. 

Alla tíð síðan hef ég haft ákveðinn skilning á því að margir verði háðir upphafningunni sem fylgir því að vera hluti af liði sem tekur sér stöðu utan við lög og reglur. Vegna þess að lífið tússar framan í heiðvirt fólk, kaffærir það í snjó og neyðir ofan í það ógeðisdrykki. Það uppsker í staðinn Prúðmennskuverðlaun McDonald’s. Þetta er ástæða þess að það er svona mikil andstaða við söluna á Íslandsbanka. Það má vel vera að röksemdirnar fyrir sölunni séu allar upp á tíu og það sé hægt að fá gott verð fyrir banka í dag. En andstaðan skýrist ekki af því að almenningur sé svo vitlaus að hann skilji ekki ríkisfjármál, heldur af því að hann óttast með réttu að salan sé dæmigerður ógeðisdrykkur sem hann á að kyngja uppi í Öskjuhlíð. Einn af mörgum síðustu ár og áratugi. Óttinn á sér eðlilegar skýringar.

Það er langt um liðið en ég hef öðru hverju flett Robba upp á netinu. Ég ber virðingu fyrir honum enn þann dag í dag. Vegna þess að þótt hann hafi verið kominn út í einhvers konar vísi að skipulagðri glæpastarfsemi fjórtán ára gamall þá gerði hann það líka eins og alvöru mafíósi, sem sagt af sæmd, gravitas og virðingu fyrir ákveðnum prinsippum. Eftir á að hyggja skil ég líka að ástæða þess að hann hóaði í mig þarna af útidyratröppunum undir lok síðustu aldar var kannski ekki bara til þess að spara sjálfum sér sjö mínútna labb upp í Rósagerði heldur vegna þess að hann vildi fá tækifæri til þess að sýna þessa hlið á sér og líklega vissi hann alveg hver ég var, kannski hafði hann séð mig álengdar í hverfinu, kannski fyrir utan hverfissjoppuna, og ályktað að mögulega væri þessi prúðasti leikmaður McDonald’s þarna ekki algjör trúður, kannski þótti honum ég áhugaverður eða bara einfaldlega traustvekjandi, en sá ekki neinn annan flöt á því að nálgast mig eða eiga samskipti við mig annan en að fela mér að flytja stolinn scanner yfir í næstu götu. Já, kannski var það ekki Robbi sem var að vernda prúðasta leikmann Mcdonald’s fyrir kaffæringunni, tússpennunum og ógeðisdrykkjunum. Kannski var það þvert á móti prúðasti leikmaður McDonald’s sem verndaði eitthvað í honum – hlýju, samkennd og traust sem hann gat ekki sýnt öðruvísi en með valdi.