Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Minni sveitarfélög landsins sameina krafta sína

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Tuttugu fámenn sveitarfélög hafa nú hafið formlegt samráð sín á milli. Þau neyðast til að sameinast ef boðaður þúsund manna lágmarksíbúafjöldi gengur eftir.

Fimm manna nefnd vinnur nú að því að formfesta samstarf fámennari sveitarfélaga landsins. Helsta verkefni hópsins er að koma skoðunum þeirra á framfæri og reyna að koma í veg fyrir að þau neyðist til að sameinast öðrum sveitarfélögum ef lágmarksíbúafjöldi verður hækkaður. Jón Páll Hreinsson er bæjarstjóri í Bolungarvíkurkaupstað, einu þessara sveitarfélaga. Hann segir samráðshópinn ekki á móti því að efla sveitarfélög landsins. 

„Við erum bara á móti því að íbúarnir eigi ekki síðasta orðið þegar kemur að sameiningu.“

Hann segir hópinn vilja ræða við Samband íslenskra sveitarfélaga og koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Samband Íslenskra sveitarfélaga er fylgjandi hækkuðum lágmarksfjölda. 

„Við viljum ná sáttum og við viljum leggja á okkur að koma á einhvers konar málamiðlun til þess að reyna að sætta þessi andstæðu sjónarmið innan sambandsins því ég held það sé mikilvægt að öll sveitarfélög reyni að vinna saman að því að hagsmunum sveitarfélagsstigsins á landinu.“

Frumvarp sveitarstjórnarráðherra gerir ráð fyrir því að lágmarksíbúafjöldi verði 250 frá sveitarstjórnarkosningum á næsta ári og þúsund frá 2026. Yfir helmingur sveitarfélaga landsins ná ekki því marki og munu þar með neyðast til að sameinast.