Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Lymskufullir bókaþjófar herja á íslenska höfunda

Mynd: - / Forlagið

Lymskufullir bókaþjófar herja á íslenska höfunda

01.02.2021 - 20:13

Höfundar

Óprúttnir svikahrappar hafa síðustu ár freistað grandalausra rithöfunda um heim allan til að láta af hendi óútgefin handrit. Nú eru íslenskir höfundar komnir í sigtið hjá þjófunum en enginn veit með fullri vissu hver tilgangurinn er.

Björn Halldórsson, rithöfundur, taldi sig hafa dottið í lukkupottinn þegar honum barst tölvupóstur frá manneskju sem sagðist vera aðalritstjóri virtrar bókaútgáfu í New York, þeirrar sömu og gefur út bókmenntastjörnuna Elenu Ferrante í Bandaríkjunum. Sagðist hún hafa mikinn áhuga á handriti að óútgefinni skáldsögu hans og vildi komast í samband við umboðsmann hans.

„Það var varla farin út fréttatilkynning. Ég er búinn að setja upp kápuna af bókinni og mín fyrstu viðbrögð voru samt: Já! Þetta virkar alveg pottþétt, auðvitað vill þessi útgefandi gefa út bókina mína á ensku út um allan heim. Einhver hefur talað við manninn og sagt honum að það væri gott stöff á leiðinni.“ Þetta reyndist hins vegar of gott til að vera satt og Björn einungis nýjasta skotmark dularfullra bókaþjófa sem herjað hafa á rithöfunda, umboðsmenn og útgefendur um heim allan síðustu ár.

New York Times tók þrjótana til umfjöllunar í desember og greindi frá því  að vandamálið hafi verið viðvarandi síðustu þrjú árin hið minnsta en fjöldi tölvupósta af þessu tagi jókst mjög á síðasta ári. Tveir stærstu útgefendurnir í Bandaríkjunum, Penguin Random House og Simon and Schuster, hafa sent út sérstakar viðvaranir vegna málsins. Það virðist litlu skipta hversu frægir rithöfundarnir eru, Margaret Atwood og Ian McEwan hafa fengið slíka pósta, en einnig glænýir og óþekktir höfundar.

Fleiri skotmörk á Íslandi

Lestin á Rás 1 hefur heimildir fyrir því að þekktum íslenskum höfundum hafi einnig borist slík bréf, en jafnvel þau handrit hafa lítið verðgildi á svörtum markaði. Bækur eru ekki hefðbundin braskvara. Hvorki Björn, sem er að gefa út sína fyrstu skáldsögu, né viðmælendur New York Times sem eru ýmsu vanir úr bransanum, vita í raun hvaðan á sig stendur veðrið. Allir hafa samt sínar kenningar.

„Þetta er algjörlega verðlaust efni þannig séð, á tungumáli sem 350.000 manns tala í mesta lagi. Það er engin sjáanleg ástæða fyrir þessu, fyrir handritinu,“ segir Björn. „En ég held, eftir að hafa ráðfært mig við fólk úti, sem er að vinna hjá stórum útgefendum, þá held ég að þetta sé fyrsti hluti í einhverju ferli, að búa til traustið og sambandið, svo má guð vita hvað hefði komið til viðbótar hefði maður sent handritið.“

En hann sendi ekki handritið. „Maður á aldrei að gera það. Ég er sem betur fer með góðan útgefanda sem ég get ráðfært mig við ... Þetta er víst líka að gerast í listaheiminum og hjá tónlistarmönnum. Við erum auðveld skotmörk fyrir þetta. Steríótýpan um listamenn er að þeir séu einangraðir, vinna einir, eiga mestmegnis í samskiptum við útgefendur í gegnum tölvupósta. Svona almennt kunnum við ekkert sérstaklega að fara vel með peninga og erum kannski dálítið treystandi og gjörn á að trúa því að annað fólk sé jafn spennt fyrir því sem við erum að gera og við sjálf. Þannig að við erum kannski dálítið ginnkeypt fyrir þessu.“

Mögulegur skaði ekki einungis fjárhagslegur

Ein helsta kenningin vestanhafs mun vera sú að einhverjir í samfélagi svokallaðra „literary scouts“ standi fyrir póstunum. Literary scouts eru hálfgerðir umboðsaðilar sem hafa það að aðalstarfi að þefa uppi vænleg handrit og hafa milligöngu um sölu útgáfuréttindanna til alþjóðlegra útgefenda sem og kvikmyndaréttar til framleiðenda. Þeir eru á meðal þeirra fáu sem mögulega gætu hagnast á óútgefnum og oftar en ekki hálfkláruðum handritum. Bókaþjófarnir virðast, samkvæmt New York Times, þekkja vel til útgáfuheimsins. Sá er þegar upp er staðið kannski fremur lítið samfélag og viðkomandi þekkja ekki bara ferlið frá fyrsta uppkasti til útgáfu heldur hefur þeim einnig tekist að kortleggja tengingar manna á milli, vita hverjir hafa aðgang að hvaða handritum og þá er þeim bransatalið tamt.

Málið er litið alvarlegum augum af bókaútgefendum og rithöfundum. Engum handritum virðist enn hafa verið lekið út á netið út frá þessum blekkingum og engar fregnir borist af fjárkúgunum vegna óútgefinna handrita. Jafnvel þó svo væri, þá væri skaðinn ekki aðeins fjárhagslegur heldur einnig persónulegur og faglegur. Eins og rithöfundurinn James Hannaham segir við New York Times þá vill hann ekki að neinn viti hversu slæm hans fyrstu uppköst eru.

Björn Halldórsson virðist hins vegar ekki vera í miklu uppnámi yfir að einhver hafi reynt að veiða hann í gildru. „Mann langar að trúa því að það sé samsæri í gangi. Að einhver sé að safna öllum þessum handritum saman í miklum tilgangi og það sé einhver saga. Það er náttúrulega höfundurinn í manni, en líklegast er þetta mjög lítið spennandi leið til að koma af stað einhverjum samskiptum. Þetta er eins og öll góð svindl.“

Anna Marsibil Clausen ræddi við Björn Halldórsson í Lestinni á Rás 1.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Mesti bókaþjófnaður í sögu Danmerkur ráðgáta í áratugi

Bókmenntir

Sprettur fram sem mjög fær höfundur