Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Lögregla verst allra fregna af skotárásarmálinu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gæsluvarðhaldskrafa yfir manni sem er grunaður um að hafa skotið úr 22. kalibera riffli á bíl Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, og inn um glugga á skrifstofuhúsnæði Samfylkingarinnar, rennur út í dag. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóri verjast allra fregna af málinu.

Tveir voru með réttarstöðu sakbornings

Maðurinn, sem er á sextugsaldri, var handtekinn á laugardag ásamt öðrum manni. Sá er á fimmtugsaldri og var sleppt að lokinni yfirheyrslu. Í yfirlýsingu lögreglu á laugardag stóð að mennirnir voru þá báðir með réttarstöðu sakbornings í málinu. Afar litlar upplýsingar er að fá um framgang rannsóknarinnar, en samkvæmt heimildum fréttastofu fannst töluvert magn af skotvopnum heima hjá yngri manninum, meðal annars tveir rifflar. Rannsóknin er bæði á borði ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en enginn hefur viljað vita neinar frekari upplýsingar í morgun. Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, upplýsingafulltrúi lögreglunnar, segir í svari til RÚV að ekki sé hægt að greina frekar frá rannsókninni að svo stöddu.

Myndbandið um Óðinstorg fjarlægt af YouTube

Myndband hagsmunahópsins Björgum miðbænum, þar sem Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins er þulur og fjallar um framkvæmdakostnað við Óðinstorg, þar sem borgarstjóri á heima, var fjarlægt af Youtube í morgun. Bolli Kristinsson er meðal forsvarsmanna hópsins og baðst hann í gær afsökunar á að hafa beint athyglinni að heimili Dags og vildi að myndbandið yrði tekið úr birtingu. Borgarstjóri hefur sagt að með myndbandinu hafi heimili hans verið gert að skotskífu. Vigdís vildi ekki veita fréttastofu viðtal en undirstrikaði að engin tengsl væru á milli myndbandsins og skotárásanna á fjölskyldubíl Dags og skrifstofur Samfylkingarinnar.