Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Loðna mældist víða við landgrunnið

Mynd með færslu
Rannsóknasvæði skipanna í leiðangrinum. Mynd: Hafro.is
Hluti af þeirri loðnu sem mældist í vikulöngum rannsóknaleiðangri, sem lauk um helgina, er hugsanlega viðbót við það sem mælst hefur hingað til. Leiðangursstjórinn segir of snemmt að segja til um hvort það gefi tilefni til að auka við loðnukvótann.

Það voru átta skip í þessum leiðangri sem er einn sá viðamesti sem Hafrannsóknastofnun hefur staðið fyrir. Mælt var frá miðunum undan Suðausturlandi, norður með Austfjörðum og þaðan vestur með Norðurlandi allt vestur á Grænlandssund.

Loðna undan Suðausturlandi líklega viðbót

Birkir Bárðarson, leiðangursstjóri, segir að loðna hafi sést víða með landgrunnsbrúnum á öllu þessu svæði. „Mest var af henni þarna á suðaustur svæðinu hjá okkur núna. Og þar var hún byrjuð að ganga upp á grunnin.“ Það ætti að vera loðna sem ekki náðist að mæla þar fyrr í janúar. „Megnið af því sem við sáum núna ætti að vera viðbót. En við erum að fara yfir þetta núna og skoða.“

Aðallega ungloðna í Grænlandssundi

Nú tókst að mæla í Grænlandssundi þar sem hafís hefur áður hindrað mælingar, en þar reyndist aðallega ungloðna sem Birkir segir ekki hluta af veiðistofni þessarrar vertíðar. Fullorðna loðnan sé því gengin af því svæði enda hafi meira mælst af kynþroska loðnu eftir því sem austar dró.

Vill ekkert segja fyrr en nðurstaða er komin

Þegar hafa verið heimilaðar veiðar á 61 þúsund tonnum af loðnu en af því kemur aðeins um þriðjungur til íslenskra skipa. Mikil eftirvænting ríkir því hjá útgerðinni fyrir niðurstöðum úr mælingunni. „Ég held ég verði bara að geyma að segja nokkuð um það fyrr en við erum komin með niðurstöðu,“ segir Birkir, aðspurður um það hvort mælingin nú gefi tilefni til aukinna heimilda. „Ég held að það væri rétt að við förum vel yfir gögnin núna. Og við munum bæði þurfa að reikna upp núverandi mælingu og svo skoðast hún með fyrri mælingum til að við fáum síðan niðurstöðu, bæði heildar stofnmat og ráðgjöf.“