Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Flokkur fólksins dettur af þingi og Viðreisn tvöfaldast

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - rÚV
Samfylking, Píratar og Viðreisn bæta við sig þingmönnum, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup, og ríkisstjórnarmeirihlutinn heldur ef gengið yrði til kosninga nú. Hvorki Flokkur fólksins né Sósíalistaflokkurinn næðu manni á þing. Viðreisn er eini flokkurinn sem bætir við sig mælanlegu fylgi milli mánaða og mundi tvöfalda núverandi þingmannafjölda sinn.

Fylgi Viðreisnar eykst um tæp tvö prósentustig frá síðustu mælingu og segjast nær 12 prósent myndu kjósa flokkinn ef alþingiskosningar færu fram nú. Fylgi annarra flokka breytist lítið eða ekkert milli mánaða. Tæp 23 prósent myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, nær 17 prósent Samfylkinguna, næstum 13 prósent Vinstri græn, liðlega 11 prósent Pírata, tæplega 10 prósent Framsóknarflokkinn, 8 prósent Miðflokkinn. Flokkur fólksins fær fjögur prósent og sömuleiðis Sósíalistaflokkur Íslands, en hvorugur næði manni á þing. Tæp 60 prósent segjast styðja ríkisstjórnina. 

En skoðum niðurstöður síðustu þingkosninga, haustið 2017, og berum saman við nýjasta Þjóðarpúlsinn.

 

Samfylking, Píratar og Viðreisn eru með meira fylgi nú en 2017.
Ríkisstjórnarflokkarnir tapa fylgi, sem og Miðflokkurinn og Flokkur fólksins.  

Framsóknarflokkur tapar einum manni, Sjálfstæðisflokkur heldur sínum 16, Samfylking færi úr 7 í 11, Vinstri græn tapa tveimur, Píratar ná einum fleiri, Viðreisn mundi tvöfalda þingmannafjölda sinn, úr 4 í 8, Flokkur fólksins tapar öllum fjórum og Miðflokkurinn missir tvo, úr sjö niður í fimm. 

Samkvæmt þessu næðu núverandi ríkisstjórnarflokkar þó að halda meirihluta. 

Og ef kjördæmaskiptingin er skoðuð lauslega þá er Framsókn sterkust í Norðvestur, Sjálfstæðisflokkur í Suðvestur, Samfylking í Norðaustur og Suður, VG í Norðaustur, Píratar í Reykjavík norður, Viðreisn í Reykjavík suður, Flokkur fólksins í Suðurkjördæmi og Norðvesturkjördæmi er sterkasta vígi Miðflokksins. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV