Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Áskriftum að Stöð 2 fjölgað um fjögurra stafa tölu

01.02.2021 - 15:51
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - RÚV
Frá því að breytingar voru gerðar á fréttatíma Stöðvar 2 um miðjan janúar hefur áskriftum fjölgað um fjögurra stafa tölu að sögn Heiðars Guðjónssonar, forstjóra Sýnar. Ekki er gefinn upp nákvæmur fjöldi seldra áskrifta frá því að breytingarnar gengu í gegn.

Í tilkynningu frá Stöð 2 á föstudaginn kemur fram að áskriftasala hafi tvöfaldast í janúar og að 40.000 heimili séu með áskrift að efnisveitunni Stöð2+. Ekki hafa fengist upplýsingar um hvaða tölur liggja að baki þeirri tvöföldun í fjölda áskrifta, en í skriflegu erindi Heiðars Guðjónssonar til fréttastofu segir að áskriftum hafi fjölgað um fjögurra stafa tölu en ekki tveggja eða þriggja stafa tölu, án þess að tilgreina það nánar. 

Þann 11. janúar var tilkynnt að fréttatími Stöðvar 2 yrði aðeins aðgengilegur áskrifendum stöðvarinnar og gengu þær breytingar í gegn 18. janúar. Samkvæmt ljósvakamælingum Gallups hefur áhorf á fréttatíma Stöðvar 2 farið úr 20-25 prósentum, sem var algengt áhorf fyrir breytinguna, niður í tæp 11 prósent hjá aldurshópnum 12 til 80 ára.