Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Tilslakanir ekki lagðar til - vegfarendur ánægðir

Mynd: RÚV / RÚV
Sóttvarnalæknir hefur ekki lagt til við ráðherra að létta á takmörkunum. Vegfarendur sem fréttastofa tók tali eru þolinmóðir og hrýs hugur við að slaka á of snemma.

Ekkert kórónuveirusmit greindist innanlands í gær samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum. Sex greindust við landamærin. Ekki liggur fyrir hvort þau voru virk. 

Fjórir smitlausir dagar síðan 15. janúar

Þegar litið er á innanlandssmit í janúar þá sést að smitin eru fá. Flest voru þau ellefu 6., janúar, þann 3. og 8. voru þau tíu og svo sex þann 12. Aðra daga hafa þau verið frá fimm niður í ekkert. Ef undan er skilinn nýársdagur þegar engin sýnataka var þá hafa verið fjórir smitlausir dagar og það allt síðari hluta mánaðarins þar af ekkert í gær og ekkert á fimmtudaginn.  

Þórólfur hefur ekki sent ráðherra tillögur

Á upplýsingafundi á fimmtudaginn sagði sóttvarnalæknir að ekki væri útilokað að hægt yrði að slaka á núna á næstunni. 

Sóttvarnalæknir svaraði spurningu Fréttastofu neitandi í dag um það hvort hann hefði lagt til við ráðherra að létta á einhverjum þeirra takmarkana sem gildi til 17. febrúar. 

Reglurnar tóku gildi 13. janúar og síðan hefur smitum fækkað og er Ísland orðið eina græna landið í Evrópu samkvæmt Evrópsku sóttvarnastofnuninni. 

Vilja ekki vera of fljót að slaka á aðgerðum

Samkvæmt mjög óvísindalegri könnun Fréttastofunnar er fólk bara ennþá frekar sátt og til í að halda þessu áfram. ))

Finnst þér að það ætti að minnka þessar reglur? 

„Nei, eiginlega ekki, ekki á meðan, COVID er alveg stór ennþá sko,“ segir Írena Petra Sigurðardóttir.

Halla Marín Magnúsdóttir segir að sér finnist að fólk eigi að passa sig: 

„Ég nenni ekki að fara í aðra bylgju og eitthvað svona vesen sko. Mér finnst alveg kannski að það sé hægt að slaka aðeins en þá missum við þetta aðeins úr böndunum, sko.“

Ertu orðin leið á þessu?

„Já, mjög. Ég vil bara hætta að vera með þessar grímur á mér sko og komast í venjulegt skólastarf aftur og svona,“ segir Halla Marín. 

Gunnar L. Friðriksson segist ekkert orðinn þreyttur á reglunum og heldur ekki að ganga með grímu: 

„Nei, það er bara allt í lagi.“

Rakel Rán Gunnarsdóttur finnst mest þreytandi að þurfa að vera með grímur inni:  

Þannig að þú ert svona orðin smá leið á þessu?

„Já, svolítið. Svona erfitt að fá vinnur og svona út af þessu.“

Hólmfríður Ásta Hjaltadóttir segir mjög gott að dregið hafi úr smitum:

„En maður vill heldur ekki vera of fljótur að slaka á vörnunum þannig að þau fari bara að blossa upp aftur. Ég er alveg til í að vera með grímu til að vernda sjálfa mig og aðra.“

Matthildur Þórarinsdóttir er ekki orðin langeygð eftir því að slakað verði á reglunum:

„Ekki á meðan að þörf er á að hafa þetta í gangi þá er það bara þannig, þá bara hlýðir maður því, ekki spurning.“