Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Telur vantraust eftir bankahrun enn ríkjandi

31.01.2021 - 13:20
Mynd með færslu
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.  Mynd: RÚV
Forsætisráðherra telur að upplifun almennings af spillingu hafi beðið það mikinn hnekki í hruninu að enn sé ekki búið að byggja upp traust á ný að fullu. 

Alþjóðleg samtök gegn spillingu, Transparency International, birtu í síðustu viku niðurstöður mælinga á spillingu í flestum löndum heims. Þær byggjast á áliti sérfræðinga og fólks í viðskiptalífinu og ná til opinbera geirans. Ísland er í sautjánda sæti yfir þau ríki þar sem spilling þrífst verst. Danmörk og Nýja Sjáland eru í efsta sæti, það er, þar er spillingin talin minnst. Ísland kemur verr út en hin Norðurlöndin. 

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir á síðasta áratug hafi margt verið gert til að bæta regluverk og draga úr spillingu, þar megi nefna varnir gegn hagsmunaárekstum og reglur um fjármálakerfið. Samt sé Ísland neðar á listanum nú en árið fyrir hrun. „Það auðvitað segir okkur að þetta snýst kannski auðvitað um viðhorf almennings og upplifun almennings sem að einhverju leyti beið svo mikinn hnekki í hruninu að ég held að við séum enn ekki komin á þann stað að við höfum byggt upp traust þrátt fyrir allar þessar ráðstafanir sem gerðar hafa verið,“ segir Katrín.

En er niðurstaða mælingarinnar rétt og sanngjörn? „Ég held að hún sé ekki sanngjörn gagnvart þeim breytingum, til að mynda sem við höfum verið að gera og það er mjög áhugaverð skýrsla sem var lögð fram á þingi fyrir jól af mér sem fer yfir hvernig unnið hefur verið úr ábendingum rannsóknarnefnda Alþingis. Þar sem alveg ótrúlega mikið starf hefur verið unnið í raun og veru að bæta úr því sem bent var á þar. Þannig að ég held að það hafi mjög mikið verið gert af hálfu stjórnvalda í öllu falli til þess að bæta hér úr,“ segir forsætisráðherra.

Hins vegar sé vitað að hlusta þurfi eftir þeirri vísbendingu sem þetta viðhorf segi okkur, að mati forsætisráðherra. „Það segir mér það að þó að mikið hafi verið gert á sviði löggjafar og annars fyrirkomulags þá höfum við enn þá þetta vantraust í samfélaginu.“