Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Segja ekki hægt að taka upp ný kosningalög fyrir haust

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Of skammur tími er til að innleiða nýtt fyrirkomulag kosninga fyrir Alþingiskosningarnar sem haldnar verða í lok september. Þetta kemur fram í umsögnum um frumvarp um breytingar á kosningalögum, en stefnt er að þvi að það verði að lögum í vor.

Frumvarpið er lagt fram af Steingrími J. Sigfússyni þingmanni Vinstri grænna og forseta Alþingis og þar er kveðið á um fjölmargar breytingar á núverandi fyrirkomulagi kosninga. Markmiðið er að samræma framkvæmd kosninga á mismunandi stjórnsýslustigum og þar er meðal annars kveðið á um að kjörfundir verði styttir um klukkustund frá núverandi fyrirkomulagi; úr því að vera opnir til tíu á kvöldin í að vera opnir til níu og að kjörskrár verði rafrænar.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að póstkosningar geti hafist 57 dögum fyrir kjördag. Í umsögn Sjálfstæðisflokksins er bent á að þá séu ekki öll framboð komin fram, en þeim ber að skila 36 dögum fyrir kjördag. Þetta sé til þess fallið að draga úr réttindum kjósenda.

Verði frumvarpið samþykkt munu lögin taka gildi 1. maí. Í umsögn Kópavogsbæjar við frumvarpið segir að of knappur tími sé til stefnu til að innleiða nýtt fyrirkomulag fyrir alþingiskosningarnar í haust. Það sama segir meðal annars í umsögnum Sambands íslenskra sveitarfélaga, yfirkjörstjórnar Reykjavíkur og fleirum.

Yfirkjörstjórn Reykjavíkur gerir athugasemd við að ráðherra eigi að geta útfært ýmis framkvæmdaatriði varðandi kosningarnar með reglugerðum. Það sé varasöm breyting sem ógni stöðugleika.