Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Óvíst hvort krafist verði lengra gæsluvarðhalds

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Óvíst er hvort farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manni á sextugsaldri sem var úrskurðaður í gæsluvarðhald í gær vegna gruns um aðild að skotárás á bíl fjölskyldu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að rannsókn málsins sé enn í gangi.Gæsluvarðhaldsúrskurðurinn yfir manninum rennur út á morgun.

Fram kom í fréttum RÚV í gær að tveir menn eru með réttarstöðu sakbornings í tengslum við rannsókn lögreglu á málinu og var öðrum sleppt að lokinni yfirheyrslu. Margeir sagði í samtali við fréttastofu í gær að lögregla hefði notið aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra.

Dagur sagði í Silfrinu í morgun að líklega hefði verið skotið á bílinn á bílastæði aftan við heimili hans. Hann sagði þar að atvikinu fylgi erfiðar tilfinningar, hann og fjölskylda sín horfi aðeins öðruvísi út um gluggann nú en áður. Hann segir að heimili sitt hafi verið gert að skotskífu í myndbandi aðgerðahópsins Björgum miðbænum.